Erlent

Tvíburabræður létust í sleðaslysi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Drengirnir skullu á hliði sem hulið er með bláu neti á myndinni.
Drengirnir skullu á hliði sem hulið er með bláu neti á myndinni. vísir/ap
Kanadíska þjóðin er í sárum eftir að tvíburabræður létust í því sem talið er hafa verið sleðaslys í kanadísku borginni Calcary í gær.

Drengirnir voru úrskurðaðir látnir þegar sjúkraflutningamenn komu á slysstað í Canada Olympic Park en sex aðrir unglingspiltar voru fluttir á nærliggjandi sjúkrahús. Ekki er talið að þeir séu alvarlega slasaðir.

„Við teljum að það hafi að minnsta kosti 8 unglingar, allt strákar, brotið sér leið inn á svæðið til að renna sér niður bobsleðabrautina,“ sagði lögreglan í tilkynningu í dag. Hún telur að sleði drengjanna hafi rekist á hlið á miklum hraða á leiðinni með fyrrgreindum afleiðingum.

Greint var frá því í kanadískum miðlum í dag að drengirnir hafi heitið Evan og Jordan Caldwell og að þeir hafi verið 17 ára gamlir. 

Caldwell-fjölskyldan sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hún sagði að drengjanna yrði sárt saknað. „Drengirnir okkar Jordan og Evan voru skær ljós í líf allra þeirra sem þá þekktu,“ sagði meðal annars í tilkynningunni.

„Við syrgjum fráfall þeirra en höfum trú á nýja heimili þeirra á himnum. Þau stuttu 17 ár sem við áttum með þeim voru gjöf; sem í var ást, hlátur og hlýjar minningar.“

Verið er að yfirfara myndbandsupptökur til að sjá hvernig og hvers vegna drengirnir brutu sér leið inn á svæðið. Á þessari stundu er ekki vitað hvort einhver þeirra hafi starfað í garðinum eða muni eiga yfir höfði sér kæru vegna málsins.

Umsjónarmaður garðsins, sem hýsti Vetrarólympíuleikana árið 1988, segir að öryggismál garðsins, sem fyrir slysið voru talin óaðfinnanleg, verði yfirfarin vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×