Handbolti

Túnis endaði í 19. sæti á HM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir/getty
Túnis, sem var með Íslandi í riðli á HM 2017 í handbolta, vann Sádi-Arabíu, 39-30, í leiknum um 19. sætið í kvöld.

Afríkuliðið endaði í fimmta sæti B-riðils með fjögur stig eins og Ísland en strákarnir okkar komust í 16 liða úrslitin þar sem þeir voru með betri markatölu en Túnisbúar.

Ísland og Túnis skildu jöfn, 22-22, en Ísland vann aðeins einn leik á mótinu. Það var á móti Angóla sem endaði í 24. og neðsta sæti HM eins og greint var frá í dag.

Túnis tapaði fyrir Póllandi í leiknum um 17.-20. sætið en Sádi-Arabía tapaði fyrir Argentínu. Pólverjar og Argentínumenn eigast nú við í leiknum um 17. sætið sem er einskonar úrslitaleikur Forsetabikarsins.

Khaled Haj Youssef fór hamförum fyrir Túnis í dag og skoraði tólf mörk úr þrettán skotum og Saied Sobhi skoraði sex mörk úr sex skotum. Mohammed Alabas var markahæstur Sádanna með níu mörk úr fjórtán skotum.

Markverðir Sádi-Arabíu vörðust nánast ekki neitt í leiknum. Þeir vörðu samtals fjögur skot og voru með níu prósent hlutfallsmarkvörslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×