Innlent

Tugmilljóna trjágrisjun hófst í Öskjuhlíð í gær

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Starfsmenn Hreinna garða tóku til óspilltra málanna í gær.
Starfsmenn Hreinna garða tóku til óspilltra málanna í gær. vísir/anton brink
Byrjað var að grisja skóginn í Öskjuhlíð í gær en fyrirtækið Hreinir garðar sér um verkið. Alls verða felld 130 stór grenitré sem ná upp fyrir öryggisviðmið í aðflugs­línu að Reykjavíkurflugvelli.

Fimm fyrirtækjum var boðið að gera tilboð og buðu tvö í verkið. Hreinir garðar buðu um 18,5 milljónir en fyrirtækið 7913 bauð um 20,2 milljónir.

Vegna þess að verkið er flókið og á viðkvæmu svæði ákvað Isavia, sem er framkvæmdaraðili ásamt Reykjavíkurborg, í samráði við sérfræðinga sem ráðnir voru sem ráðgjafar við verkið að tilboðsgögn yrðu aðeins send fyrirtækjum með þekkingu á grisjun og trjáfellingum og sem eiga tækjabúnað fyrir verkefnið. Reykjavíkurborg hefur eftirlit með verkinu. Áætluð verklok eru um miðjan mars.

Þegar málið kom upphaflega til umræðu 2011 var rætt um að hugsan­lega yrðu trén ekki felld heldur sagað ofan af þeim en slíkt verður ekki gert og trén því söguð niður við jörð.

Þröstur Ólafsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Viðurinn sem fellur til verður nýttur í hof Ásatrúarfélagsins og í útivistarsvæðið í Öskjuhlíð. Kurlið fer í stíga eða á gróðursvæði.

Þröstur Ólafsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, segir að félagið muni una dómi Hæstaréttar og ekki aðhafast meir í málinu. Rödd félagsins sé búin að heyrast og úr því sem komið er sé ekki hægt að breyta neinu.

„Þetta er sorglegt og leiðinlegt og svæðið verður ekki jafn fallegt á eftir. Við höfum gert allt sem í okkar valdi stóð en dómur frá Hæstarétti stendur,“ segir hann.

Gert er ráð fyrir því að ný tré verði gróðursett þar sem mörg há grenitré sem þarf að fella standa saman í lundi. Öllu raski verði haldið í lágmarki og umferð tækja verður takmörkuð eins og hægt er.

Gæta á sérstaklega að öryggi gesta bæði á meðan á verkinu stendur og eftir vinnutíma. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×