Viðskipti innlent

Tryggingastaða lífeyriskerfisins batnar um 1-2%

Ætla má að viðskipti Seðlabankans og lífeyrissjóðanna muni bæta tryggingafræðilega stöðu íslenska lífeyriskerfisins um 1-2%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lífeyrissjóðunum um kaup þeirra á íbúðabréfum af Seðlabankanum sem kynnt voru í morgun.

Í tilkynningunni segir að Seðlabanki Íslands bauð lífeyrissjóðum að kaupa skuldabréf úr „pakkanum frá Luxemborg" og önnur skuldabréf. Bréfin eru verðtryggð, að jafnaði til níu ára og ávöxtunarkrafan er 7,2%.

Forystusveit Landssamtaka lífeyrissjóða fjallaði um málið nú um helgina ásamt framkvæmdastjórum lífeyrissjóða. Þá var einnig efnt á sama tíma til stjórnarfunda í lífeyrissjóðunum.

Í gær, sunnudag, varð síðan að samkomulagi að 26 sjóðir kaupi skuldabréf af Seðlabanka Íslands fyrir 88 milljarða króna.

Af hálfu Seðlabanka var sett það skilyrði að lífeyrissjóðir fjármögnuðu kaupin með evrum. Lífeyrissjóðirnir selja því erlendar eignir sem nemur fjárfestingunni. Þess má geta að erlendar eignir íslenskra lífeyrissjóða námu alls 554 milljörðum króna í lok marsmánaðar 2010.

Kjörin á þessum skuldabréfum, sem lífeyrissjóðirnir kaupa, eru betri en bjóðast hér á markaði. Vissulega draga lífeyrissjóðir tímabundið úr dreifingu áhættu í fjárfestingum við að losa um erlendar eignir sínar og flytja fjármuni hingað til lands. Á hinn bóginn flýtir þessi mikla fjárfesting fyrir því að afnema gjaldeyrishöftin.

Síðast en ekki síst er ávöxtunarkrafa skuldabréfanna umtalsvert hærri en miðað er við í tryggingafræðilegu uppgjöri lífeyrissjóða.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×