Erlent

Trump segir Kínverja stela og þeir segja allt of mikið gert úr málinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump segir Kínverja hafa stolið kafbátnum.
Donald Trump segir Kínverja hafa stolið kafbátnum. Vísir/GETTY/AFP
Kínverjar hafa sakað Bandaríkin um að bregðast allt of illa við atviki í Suður-Kínahafi. Kínverjar lögðu hald á sjálfvirkan kafbát Bandaríkjanna á þriðjudaginn, þegar verið var að nota kafbátinn við rannsóknir á alþjóðlegu hafsvæði. Hernaðaryfirvöld í Bandaríkjunum fara fram á að kafbátnum verði skilað og hafa varað Kínverja við því að grípa aftur til svipaðra aðgerða.

Hernaðaryfirvöld Bandaríkjanna segja Kínverja ætla að skila kafbátnum en Kínverjar gagnrýndu Bandaríkin fyrir að gera allt of mikið úr atvikinu.

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hafði tíst um málið skömmu fyrir tilkynningu Kínverja í dag. Sagði hann Kína hafa stolið kafbátnum með slíkum hætti sem ætti sér ekki nokkurt fordæmi. Trump hefur þegar valdið taugatitringi í Peking með viðhorfi sínu og ummælum gagnvart Taívan.

Forsetinn verðandi hefur orðið fyrir mikilli gagnrýni á samfélagsmiðlum fyrir að hafa skrifað orðið „unprecedented“ vitlaust í tísti sínu, en hann hefur breytt tístinu.

Herskip frá Kína tók kafbátinn um borð skammt undan ströndum Filippseyja, skömmu áður en áhöfn rannsóknaskipsins USNS Bowditch hafði tækifæri til þess á fimmtudaginn. Bandaríkin segja kafbátinn hafa verið greinilega merktan og vilja þau fá hann aftur.

Kína hefur gert ólöglegt tilkall til nærri því alls Suður-Kínahafs og hafa þeir byggt eyjur, flotastöðvar og flugvelli og þar að auki hefur eldflaugum og loftvarnabyssum verið komið fyrir á eyjum víða um hafið. Spenna á svæðinu er mikil.

Sérfræðingar segja atvikið með kafbátinn vera mjög alvarlegt og að það muni koma til með að auka spennuna á svæðinu frekar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×