Erlent

Trump kennir Demókrötum um og segir að Obamacare muni "springa“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna segir að andstaða Demókrata við heilbrigðisfrumvarp Repúblikana hafi orðið til þess að hætt var við að kjósa um frumvarpið á bandaríkjaþingi í kvöld.

Trump ræddi við fjölmiðla frá skrifstofu hans í Hvíta húsinu eftir að ljóst var að frumvarpið myndi ekki fá nægan stuðning á þingi. Var því ákveðið að draga það til baka og því ljóst að Obamacare, núverandi heilbrigðisslöggjöf í Bandaríkjunum sem Trump lagði mikla áherslu á að fella úr gildi mun áfram gilda í Bandaríkjunum.

Í máli Trump við fjölmiðla kom þó fram að hann hefði ekki mikla trú á að Obamacare myndi lifa mikið lengur. Gerist það vill hann fá Demókrata að borðinu til þess að semja um nýtt heilbrigðisfrumvarp.

„Það sem væri mjög gott, miðað við engan stuðning frá Demókrötum, væri ef þeir myndu koma til móts við okkur og semja um alvöru heilbrigðisfrumvarp. Ég væri mjög opinn fyrir því,“ sagði Trump.

Sagði hann að Obamacare væri við það að „springa“ og mögulega væri best að leyfa því að falla saman af sjálfu sér áður en haldið væri af stað til að semja nýja heilbrigðislöggjöf. 

Mikill ágreiningur er meðal Repúblikana á þingi um það hvers konar löggjöf eigi að taka við af Obama­care-lögunum svonefndu en eitt helsta kosningamál Trumps var að gera Obamacare-lögin að engu.

Ljóst þykir að það að ekki hafi tekist að koma Trumpcare, eins og þetta heilbrigðisfrumvarp hefur verið nefnt, í gegnum þingið þykir mikið áfall fyrir Trump. Lagði hann áherslu á að næst myndi hann leggja áherslu á endurbætur á skattamálum og því ljóst að Repúblikanar munu ekki snerta á nýju heilbrigðisfrumvarpi á næstunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×