Innlent

Treysta ekki stjórninni til að einkavæða banka

Sveinn Arnarsson skrifar
Samsett mynd af stóru viðskiptabönkunum þremur.
Samsett mynd af stóru viðskiptabönkunum þremur.
Aðeins fimmti hver Íslendingur treystir núverandi stjórnvöldum til að halda utan um sölu á hlut ríkisins í íslenskum bönkum.

Þetta kemur fram í könnun ­Gallup. Spurt var: „Hversu vel eða illa treystir þú núverandi ríkisstjórn til að sjá um sölu á hlut ríkisins í bönkum?“ 21,5 prósent treysta ríkisstjórnarflokkunum vel til þess. 61,4 prósent treysta ríkisstjórn illa og 17,2 prósent svara hvorki né. Minnst er traustið hjá háskólamenntuðum, hjá íbúum höfuðborgarsvæðisins og aldurshópnum 25-34 ára.

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir ríkisstjórnarflokkana glíma við gamlan draug þegar kemur að einkavæðingu bankanna. „Þessi niðurstaða sýnir að ríkisstjórnarflokkarnir njóta lágmarkstrausts til að standa að einkavæðingu bankanna. Það traust er talsvert minna en samanlagt fylgi þeirra nú. Það segir sína sögu,“ segir Grétar Þór.

Gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi næsta árs að þriðjungshlutur ríkisins í Landsbankanum verði seldur. Kemur þar fram að ríkið ætli sér að fá rúmlega 70 milljarða fyrir þann eignarhlut. Þann 19. nóvember síðastliðinn var haldin sérstök umræða á Alþingi um einkavæðingu ríkisins í íslenskum bönkum.

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, segir þessar niðurstöður koma lítið á óvart. „Það fór svo mikið úrskeiðis síðast að landsmenn treysta þeim ekki enn fyrir svo stóru verki sem einkavæðingin er.“

Könnunin var framkvæmd af Gallup fyrir þingflokk Pírata, dagana 3.-14. desember. 1.433 voru í úrtaki Gallup, 81 svaraði könnuninni eða 61,5 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×