Íslenski boltinn

Toppliðin unnu öll í 1. deildinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þróttarar eru enn með fjögurra stiga forystu á toppnum.
Þróttarar eru enn með fjögurra stiga forystu á toppnum. Vísir/Ernir
Þróttur, Víkingur Ólafsvík, Fjarðabyggð og Þór unnu öll leiki sína í 1. deild karla í kvöld en þetta eru fjögur efstu lið deildarinnar.

Þróttur er á toppnum eftir 1-0 sigur á Gróttu á heimavelli en Rafn Andri Haraldsson skoraði eina mark leiksins á sautjándu mínútu.

Víkingur Ólafsvík virðist á mikilli siglingu en liðið hefur ekki tapað leik í deildinni síðan það mætti Þrótti í lok maí. Ólafsvíkingar unnu 4-0 sigur á Fram í kvöld þar sem Ingólfur Sigurðsson skoraði tvö mörk og þeir Kenan Turudija og Brynjar Kristmundsson eitt hvor.

Fjarðabyggð vann svo HK í Kórnum, 3-1. Stefán Þór Eysteinsson, Brynjar Jónasson og Elvar Ingi Vignisson skoruðu mörk gestanna en Guðmundur Atli Steinþórsson fyrir HK þegar skammt var til leiksloka.

Hinn sautján ára Sveinn Aron Guðjohnsen var varamaður hjá HK í leiknum en kom ekki við sögu. Hann er elsti sonur Eiðs Smára Guðjohnsen.

Þór komst svo upp í fjórða sætið með sigri á Selfossi, 2-1. Sigurinn var kærkominn fyrir Þór sem hafði tapað þremur deildarleikjum í röð. Selfoss komst yfir með marki Ragnars Þórs Gunnarssonar en Ármann Pétur Ævarsson og Jóhann Helgi Hannesson tryggðu Þór sigurinn.

BÍ/Bolungarvík og Haukar gerðu svo 2-2 jafntefli á Torfnesvelli. Aaron Walker og David Cruz Fernandez skoruðu mörk Djúpmanna en Björgvin Stefánsson skoraði bæði mörk Hauka.

Þróttur er á toppnum með 27 stig og hefur fjögurra stiga forystu á Ólafsvíkinga. Fjarðabyggð er svo skammt undan með 21 stig og Þór er með átján. BÍ/Bolungarvík er enn neðst þrátt fyrir að hafa fengið stig í kvöld en liðið er með fjögur stig, einu minna en Grótta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×