Menning

Tónleikar í háskólakapellunni í hádeginu í dag

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Hafdís og Grímur hafa leikið reglulega saman sem dúó frá árinu 2010.
Hafdís og Grímur hafa leikið reglulega saman sem dúó frá árinu 2010.
Hafdís Vigfúsdóttir flautuleikari og Grímur Helgason klarínettuleikari flytja verk eftir Þorkel Sigurbjörnsson, Elínu Gunnlaugsdóttur, Hróðmar Inga Sigurbjörnsson og Jean Rivier á háskólatónleikum í dag.

Tónleikarnir verða í kapellunni á annarri hæð aðalbyggingar Háskóla Íslands og hefjast klukkan 12.30 Sérstakur gestur tónleikanna verður Hildigunnur Einarsdóttir messósópran sem syngur í verki Hróðmars.

Svo efni tónleikanna sé lýst nánar þá hefst tónverk Þorkels, Tvíteymi, á látlausu stefi sem smám saman leitar upp á við, tekur ýmsum breytingum í samleik hljóðfæranna uns tónsmíðin spannar allt tónsvið þeirra.

Þorkell tileinkaði verkið flautuleikaranum Averil Williams sem frumflutti það í Íslandsheimsókn sinni árið 2007 ásamt Einari Jóhannessyni klarínettuleikara.

Elín samdi Leik fyrir Hallfríði Ólafsdóttur flautuleikara og Ármann Helgason klarínettuleikara sem frumfluttu verkið í Melbourne í Ástralíu í október 2010. Segja má að verkið sé einmitt leikur að endurteknu stefjaefni.

Pósthólf hjartans eftir Hróðmar Inga var upphaflega hluti af söngflokknum Stokkseyri fyrir kontratenór og kammersveit sem Sverrir Guðjónsson og Caput hópurinn frumfluttu árið 1995, en nú heyrist þessi þáttur í fyrsta sinni í nýrri gerð fyrir mezzósópran, flautu og klarínettu. Ljóðið er eftir Ísak Harðarson.



Duo Jeans Rivier ber vott um þá miklu grósku sem var í tónsmíðum fyrir tréblásara í París á öldinni sem leið. Verkið er í þremur þáttum og tónmál þess vegur á spennandi hátt salt milli ljóðrænu, dramatíkur og glaðlegrar franskrar snerpu.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. október 2016






Fleiri fréttir

Sjá meira


×