Lífið

Tom Odell með tónleika á Íslandi

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Breski tónlistarmaðurinn Tom Odell kemur fram í Hörpu í sumar.
Breski tónlistarmaðurinn Tom Odell kemur fram í Hörpu í sumar. mynd/einkasafn
„Ég hef verið að skoða hvernig hann er á tónleikum og miðað við það sem ég hef séð, og þær umsagnir sem ég hef lesið, þá veit ég að þetta verða frábærir tónleikar,“ segir tónleikahaldarinn Guðbjartur Finnbjörnsson. Hann stendur fyrir tónleikum breska tónlistarmannsins Toms Odell, sem fram fara í Eldborgarsalnum í Hörpu þann 26. júní næstkomandi.

Odell skaust upp á stjörnuhimininn á síðasti ári þegar hann gaf út plötuna Long Way Down og hefur hann og plata hans fengið prýðisdóma og hlaut til að mynda gagnrýnendaverðlaunin á Brit Awards á síðasta ári og þá var hann tilnefndur til tvennra verðlauna í ár; sem besti nýliðinn og besti sólólistamaðurinn.

Breski tónlistarmaðurinn kemur með eigin hljómsveit með sér, en Odell hefur getið sér gott orð sem algjör píanósnillingur og er af mörgum talinn vera næsta stórstjarna Breta í tónlistarheiminum. „Það eru til dæmis margir sem líkja honum við David Bowie þegar hann var á sínum yngri árum,“ bætir Guðbjartur við.

„Það er frábært að fá hann í Eldborgina því nálægðin er svo mikil við hann þar og ef allt gengur upp hjá honum þá er ólíklegt að við fáum að sjá hann í svona litlum sal í framtíðinni.“ Tom Odell leikur öll sín þekktustu lög, en hann lagið hans Another Love er með yfir 26 milljón áhorf á Youtube og þá hefur endurhljómblönduð útgáfa Zwette af sama lagi fengið yfir 36 milljón áhorf á Youtube.

Miðasala á tónleikana hefst á þriðjudaginn 6. maí á midi.is og harpa.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×