Innlent

Tölvurnar hafa slæm áhrif á svefn

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Tölvunotkun rétt fyrir háttatíma getur haft slæm áhrif á svefn barna. Þetta segir læknir á barna- og unglingageðdeild Landspítalans en mörg börn leita árlega á deildina vegna svefnvandamála.

Á hverju ári koma mörg börn, sem misst hafa stjórn á tölvunotkun sinni, á barna- og unglingageðdeild. Læknir á deildinni segir mörg barnanna einnig vera með svefnvandamál.

„Við erum allavega að sjá töluvert af börnum með þennan vanda," segir Dagbjört Sigurðardóttir, barna- og unglingageðlæknir.

Hún segir tölvunotkun rétt fyrir háttatíma geta haft slæm áhrif á svefn barna- og unglinga.

„Tölvurnar hafa áhrif á svefninn. Þau ná ekki ró og ákveðnir geislar frá tölvunum trufla melatónínframleiðsluna í heilanum sem er eitt af þeim efnum sem hjálpar okkur að innleiða svefninn."

Þannig virkar bláa ljósið frá tölvunum líkt og dagsljós og fólk á því erfiðara með að sofna. Þess vegna sé mikilvægt að börnin leggi frá sér tölvuna nokkru áður en þau ætla að fara að sofa.

„Að það sé slökkt á þeim allavega tveimur tímum áður en að barnið á að vera sofnað."

Þá segir hún erlendar rannsóknir sýna að mörg börn séu með svefnvandamál.

„Þessar tölur um að allt upp í 33% af unglingum eru ekki að ná nægum svefni. Þetta eru tölur frá Bandaríkjunum sem komu fram á ráðstefnu þar í fyrra."

Þá segir hún það ákveðið áhyggjuefni að fleiri og fleiri börn eru með tölvur inni í herbergi hjá sér og nota þær jafnvel uppi í rúmi.

„Nú eru krakkar komnir með spjaldtölvur þannig að þau hafa aðgengi að þessu hvar sem þau eru. Þannig það er erfiðara að setja þeim mörk þar, nema þá að taka þær út úr herbergjunum, við þurfum svolítið að fara að spá í því núna hvernig við getum brugðist við þessum vanda."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×