Erlent

Tólf ára drengur skotinn til bana af lögreglu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Lögreglumaður í Cleveland við skyldustörf.
Lögreglumaður í Cleveland við skyldustörf. vísir/afp
Tólf ára drengur í Cleveland borg í Ohio var skotinn til bana af lögreglumönnum þar í borg. Drengurinn hafði verið að leika sér á leikvelli með dótabyssu og ekki hlýtt fyrirmælum lögreglunnar um að setja hendur upp í loft.

Vegfarandi, sem átti leið hjá leikvellinum, hringdi í lögregluna og lét vita af drengnum. Tveir lögreglumenn fóru á vettvang og skaut annar þeirra tveimur skotum sem urðu drengnum að fjörtjóni. Annar lögreglumaðurinn var á sínu fyrsta starfsári en hinn átti að baki meir en áratug í starfi.

Mennirnir tveir sem fóru á staðinn fengu ekki að vita hvort um alvöru byssu væri að ræða eður ei. Byssan reyndist vera svokölluð „airsoft“ byssa. Slík vopn eru knúin af þrýstilofti en eru töluvert kraftminni en venjulegar loftbyssur.

Rannsókn er hafin á málinu og hafa laganna verðir verið sendir í leyfi. Lögreglan í Cleveland hefur lengi verið gagnrýnd fyrir vinnubrögð sín. Nú síðast árið 2012 þegar háhraða bílaeltingaleikur endaði með dauða tveggja en á meðan honum stóð skutu lögreglumenn alls 137 skotum af byssum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×