Erlent

Tilfelli ebólu nú fleiri en 10 þúsund

Atli Ísleifsson skrifar
Greint var frá fyrsta tilfelli ebólu í Malí í gær.
Greint var frá fyrsta tilfelli ebólu í Malí í gær. Vísir/AFP
Fjöldi tilfella ebólusmits eru nú fleiri en 10 þúsund samkvæmt nýjustu tölum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO).

Alls hafa 4.922 hinna smituðu látist en þó er talið að raunverulegur fjöldi tilfella og dauðsfalla sé mun hærri.

Einungis 27 tilfelli hafa komið upp utan hinna þriggja verst hrjáðu ríkja; Síerra Leóne, Líberíu og Gíneu. Af þeim 4.922 einstaklingum sem hafa látist vegna ebólu hafa aðeins tíu einstaklingar látist utan þessara þriggja ríkja.

Greint var frá fyrsta tilfelli ebólu í Malí í gær þar sem tveggja ára stúlka hafði látist af völdum veirunnar. Rúmlega fjörutíu manns sem höfðu komist í snertingu við stúlkuna er nú haldið í einangrun.

Í nýjustu skýrslu WHO segir að Líbería sé enn verst hrjáða landið með 2.705 skráð dauðsföll. Í Síerra Leóne eru 1.281 skráð dauðsföll og 926 í Gíneu.

Alls hafa átta látist í Nígeríu, einn í Bandaríkjunum og einn í Malí.

WHO greindi nýlega frá því að Senegal og Nígería væru nú laus við ebólu þar sem ekkert tilfelli hafi komið upp á 42 daga tímabili sem er tvöfaldur meðgöngutími veirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×