Skoðun

Til varnar heildrænum meðferðum

Jóna Ágústa Ragnheiðardóttir skrifar
Sif Sigmarsdóttir hallmælir „óhefðbundnum lækningum" eða heildrænum meðferðum eins og ég kýs að kalla það í Bakþönkum 10. maí sl. Segir hún það m.a. vera iðnað sem græðir fúlgur fjár á komplexum, vanlíðan, örvæntingu og ótta fólks – eina dæmið sem hún nefnir er þó lúpínuseyði sem maður „bruggaði heima hjá sér og gaf" af góðum hug einum saman. Ekki var hann að nýta sér varnarleysi fólks á viðkvæmum stundum og hafa það að féþúfu eins og Sif segir.

Sjálf lýsir hún því að hún hafi látið glepjast til að bera á sig andlitskrem til þess að bjarga útliti sínu og segist hefði makað sig kúamykju hefði L'Oreal sett hana í dós. Það væri þá hennar val eins og allra annarra sem leita á náðir heildrænna meðferða.

Sif hefur væntanlega gleymt því að hér áður fyrr notuðu formæður hennar keytu (hland) til hárþvotta. Það var á þeim tíma þeirra val og þótti gagnast vel.

Í bakþönkum sínum fullyrðir Sif að heildrænar meðferðir séu ekki aðeins gagnslausar heldur oft einnig skaðlegar. Þetta er rangt. Heildrænar meðferðir hafa margsannað gagnsemi sína og engin dæmi fundist um skaðsemi þeirra. Heimildarmynd um „óhefðbundnar lækningar" í Ríkissjónvarpinu var þvert ofan í það sem Sif segir í grein sinni á mjög vísindalegum nótum og full ástæða til þess að RÚV sýndi hana. Það er nefnilega bara til góðs að kynna mál frá fleiri en einni hlið rétt eins og skoðanaskipti okkar Sifjar eru mismunandi málstað til framdráttar. Kjarni málsins er þó alltaf sá að fólk eigi val um heilsu sína eins og á öðrum sviðum lífsins.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×