Erlent

Þýskir alkóhólistar fá bjór fyrir að hreinsa göturnar

Atli Ísleifsson skrifar
Hugmyndin kemur upprunalega frá Hollandi þar sem sambærilegt verkefni var hleypt af stokkunum á síðasta ári.
Hugmyndin kemur upprunalega frá Hollandi þar sem sambærilegt verkefni var hleypt af stokkunum á síðasta ári. Vísir/AFP
Áfengissjúklingar og fíklar fá nú bjór að launum fyrir það að hreinsa rusl af götum borgarinnar Essen í vesturhluta Þýskalands.

Til að byrja með munu sex manns taka þátt í verkefninu, sem gengur undir nafninu Pick Up, og hefst í dag. Þátttakendur munu hreinsa göturnar í niðurníddu hverfi í kringum aðallestarstöðina í Essen og munu fulltrúar félagsmálayfirvalda fylgjast með mönnunum að störfum.

Í frétt Die Welt kemur fram að hugmyndin sé að láta áfengissjúklinga og fíkla hreinsa götur fyrir tæpar 200 krónur á tímann, auk heitrar máltíðar og þriggja bjórflaskna að hverri vakt lokinni.

Verkefnið hefur þó verið mikið gagnrýnt, allt frá því að það var kynnt síðasta vor. Talsmaður félagsskapar sem aðstoðar heimilislausa segir verkefnið vera „ómanneskjulegt“ og þykir það vera rangt að áfengissjúklingar fái bjór á kostnað skattborgara.

Forsvarsmenn verkefnisins segja markmiðið vera að fá mestu fíklana til að skila af sér til samfélagsins á nýjan leik. „Þátttakendur í verkefninu þurfa fasta liði í sínu lífi til að koma aftur undir sig fótunum, segir Oliver Balgar í samtali við Bild.

Hugmyndin kemur upprunalega frá Hollandi þar sem sambærilegt verkefni var hleypt af stokkunum á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×