Innlent

Þykjast vera heyrnarlausir og svíkja út fé

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Lögreglan á Suðurnesjum varar við mönnum sem reyna að svíkja út fé.
Lögreglan á Suðurnesjum varar við mönnum sem reyna að svíkja út fé. vísir/gva
„Það virðist sem þeir einblíni á eldra fólk og séu þannig að nýta sér góðvild þess,“ segir Bjarney Annelsdóttir, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Undanfarna daga hafa erlendir menn bankað upp á hjá fólki og boðið ýmsa þjónustu gegn gjaldi. Lögreglan á Suðurnesjum vill vara almenning við mönnunum en Bjarney nefnir dæmi um að þeir bjóðist til að mála húsþök eða laga innkeyrslur.

„Það er ýmislegt fleira í þessum dúr sem þeir bjóða upp á en það er ekki eðlilegt að menn séu að banka upp á hjá fólki og bjóða slíka þjónustu.“

Bjarney segir mikilvægt að afþakka þessa þjónustu. „Við höfum ekki neitt en erum að leita að þessum mönnum,“ segir hún. Enginn hefur þegið þjónustu mannanna svo lögregla viti af.

Þá eru menn sem gengu um Reykjanesbæ síðastliðinn föstudag grunaðir um tilraun til fjársvika með því að reyna blekkja fólk. Þeir sögðust vera að safna fyrir heyrnarlausa og þóttust vera heyrnarlausir sjálfir.

„Þeir létu gangandi vegfarendur lesa á blað sem á stóð að þeir væru að safna fyrir heyrnarlausa. Okkur grunar að þeir séu ekki heyrnarlausir,“ segir Bjarney og bætir við að ekki sé útilokað að mennirnir séu þeir sömu og fari í hús og bjóði fólki þjónustu gegn gjaldi. „Þeir virðast vera í gulum vestum samkvæmt tilkynningunum sem við fáum. Það féllst engin á að styrkja mennina svo við vitum en fólk verður að vera vart um sig.“

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×