Innlent

Þurfum útlendinga í 5.000 störf

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Búist er við mikilli fjárfestingu í hótelum á næstu árum. Sú fjárfesting kann að hafa áhrif á íbúðafjárfestingu.
Búist er við mikilli fjárfestingu í hótelum á næstu árum. Sú fjárfesting kann að hafa áhrif á íbúðafjárfestingu. vísir/gva
Áætlað er að það þurfi að flytja inn vinnuafl fyrir að minnsta kosti 5.000 störf á næstu fjórum árum. Þetta kemur fram í Þjóðhagsspá greiningardeildar Arion banka, sem ber yfirskriftina Á fullu stími – forðumst skerin. Hrafn Steinarsson, sérfræðingur hjá greiningardeildinni, sagði á fundinum að þörf fyrir innflutning vinnuafls hefði aukist og þess væru þegar farin að sjást merki.

Hrafn benti á að aukinn ferðamannastraumur til landsins yki eftirspurn eftir vinnuafli. „Við erum að sjá töluverðan vöxt í atvinnugreinum tengdum ferðaþjónustu,“ sagði Hrafn. Hann benti á að vöxturinn í ferðaþjónustutengdum greinum væri töluvert meiri en annars staðar. Sá vöxtur gæti skapað spennu á vinnumarkaði á næstu árum.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, samstarfskona Hrafns hjá grein­ingar­deildinni, sagði að búast mætti við fleiri útlendingum hingað í vinnu á næstunni. „Frá 2012 höfum við flutt inn vinnuafl og miðað við stöðuna gerum við ekki ráð fyrir öðru en að við höldum því áfram,“ sagði Anna Hrefna.

Hún benti á að samkvæmt könnunum gerðu mun fleiri ráð fyrir því í september en í maí að þeir myndu fjölga starfsfólki á næstu sex mánuðum.

Anna Hrefna Ingimundardóttir
Í máli Önnu Hrefnu kom fram að búist er við meiri hagvexti núna heldur en gert var ráð fyrir í júní. Mikill hagvöxtur var á öðrum fjórðungi og Anna Hrefna segir að vísbendingar séu um hið sama á þriðja fjórðungi.

Greiningardeild Arion banka gerir því ráð fyrir að hagvöxtur í ár verði 5,4 prósent og verði þá mesti hagvöxtur frá árinu 2007. Svo er gert ráð fyrir að vöxturinn minnki jafnt og þétt til ársins 2018, en þá er gert ráð fyrir að hann verði 2,5 prósent.

Greiningardeildin gerir ráð fyrir að hagvöxturinn í ár og á næsta ári verði aðallega borinn uppi af einkaneyslu og fjárfestingu.

Fjárfestingar í hótelum og kísilverum eiga mikinn þátt í atvinnuvegafjárfestingu, en einnig innflutningur skipa og flugvéla. Anna Hrefna segist vonast til þess að íbúðafjárfesting fari að taka við sér vegna stöðunnar á markaði.

„Það kom á óvart hvað tölurnar á fyrstu tveimur fjórðungum ársins í íbúðafjárfestingu voru slakar. Hugsanlega er einhver samkeppni við hótel þar um vinnuafl, fjármagn og aðföng,“ segir Anna Hrefna. Einnig kunni að vera að slæmt veðurfar á fyrsta fjórðungi hafi haft áhrif.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×