Innlent

Þurfa dýralækni með hitamæli

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Gunnar Bergmann Jónsson.
Gunnar Bergmann Jónsson. Fréttablaðið/Vilhelm
„Við verðum að bíða og sjá hvað verður með framvinduna,“ segir Gunnar Bergmann, eigandi Hrefnuveiðimanna. Hann segir allt til reiðu að halda til veiða, en hrefnuveiðitímabilið hefur oft hafist um þessar mundir, hins vegar setji yfirstandandi verkfall dýralækna þó líklega ákveðið strik í reikninginn.

„Maður áttar sig svo sem ekki alveg á hvað er í uppsiglingu, en það er ljóst að dýralæknaverkfallið sem núna er í gangi hefur áhrif á okkur,“ segir hann, en reglur í kring um hrefnuveiðarnar séu á þann veg að í raun sé litið á báta þeirra eins og sláturhús.

„Við þurfum að kalla til dýralækni til að stinga hitamæli í kjötið þegar það kemur inn til vinnslu.“

Gunnar segir Hrefnuveiðimenn ekkert byrjaða að veiða enn sem komið er, þeir séu þó alveg klárir í að byrja hvenær sem er, en veiðar hafi alla jafna hafist í fyrrihluta maímánaðar.

Á meðan á verkfalli dýralækna stendur er því hrefnukjöt í hópi þeirra afurða sem ekki enda á grillum landsmanna með hækkandi sól og betra veðri.

Önnur áhrif segir Gunnar líkast til lítil á starfsemina. Flutningar á afurðum séu ekki meiri en svo að þeir geti annast þá sjálfir. „Við þurfum ekki á þjónustu annarra að halda, þannig séð. Starfsfólk hjá okkur er ekkert að fara í verkfall, sjómenn eða aðrir.“



Fréttablaðið leitar að sögum sem tengjast verkfallsaðgerðum í birtir með annarri umfjöllun um kjarabaráttu. Láttu okkur endilega vita af skemmtilegum, eða miður skemmtilegum, sögum með því að senda okkur póst á ritstjorn@frettabladid.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×