Erlent

Kvöddu fjölskyldumeðlim í hinsta sinn sem bíður aftöku

Birgir Olgeirsson skrifar
Fjölskylda Myuaran Sukumaran eftir að hafa kvatt hann í hinsta sinn.
Fjölskylda Myuaran Sukumaran eftir að hafa kvatt hann í hinsta sinn. Vísir/EPA
Hópur fanga sem bíður þess að vera tekinn af lífi fyrir eiturlyfjasmygl í Indónesíu fékk að kveðja fjölskyldu sína í dag.

Á meðal þeirra eru Ástralarnir Andrew Chan og Myuaran Sukumaran en fjölskyldur þeirra voru í miklu uppnámi þegar kom að kveðjustundinni. Systir Sukumarans féll í yfirlið og þurfti að bera hana í burtu.

Búist er við því að Chan, Sukumaran og sjö aðrir verði leiddir fyrir aftökusveit í dag. Franskur borgari hefur áfrýjað sínum dómi og bíður eftir ákvörðun yfirvalda um hvort mál hans fari aftur fyrir dóm.

Indónesía tekur einna harðast á brotum gegn eiturlyfjalöggjöf en yfirvöld þar í landi hafa réttlætt refsihörkuna með því að benda á að 33 láti lífið á hverjum degi í Indónesíu vegna eiturlyfjaneyslu.

Ástralarnir Andrew Chan og Myuaran SukumaranVísir/EPA
Ástralskir fjölmiðlar hafa greint frá því að fjölskyldur Chan og Sukumaran fengu um fimm klukkustundir til að kveðja þá. Þá hefur þeim verið meinað um að velja sér andlega ráðgjafa fyrir aftökuna. Tóku yfirvöld í Indónesíu þá ákvörðun að fá kristna ráðgjafa fyrir mennina tvo.

Bræður Chan og Sukuman hafa beðið yfirvöld um að hlífa þeim. „Í dag sá ég eitthvað sem engin fjölskylda á að þurfa að ganga í gegnum. Að þurfa að kveðja hann í síðasta skiptið, það er pynting. Engin fjölskylda ætti að þurfa að ganga í gegnum það,“ sagði Michael Chan.

„Við höfðum svo margt ræða. Við töluðum um dauðarefsinguna og hann veit að hún er sóun. Ég biðla til forseta Indónesíu að sýna miskun, ekki láta móður mína og systur þurfa að bera bróður minn til grafar,“ sagði Chintu Sukumaran.

Níu fangar fengu það staðfest formlega á laugardag að þeir yrðu teknir af lífi. Samkvæmt lögum í Indónesíu þarf að tilkynna föngum það með þriggja daga fyrir vara að taka eigi þá af lífi.

Chan og Sukumaran, ásamt sjö öðrum Áströlum, voru handteknir í Balí árið 2005 fyrir að reyna að smygla meira en 8,2 kílóum af heróíni frá Indónesíu til Ástralíu. Chan og Sukumaran voru sagðir höfuðpaurar hópsins og dæmdir til dauða. Hinir sjö eru nú að afplána lífstíðar eða 20 ára fangelsisvist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×