Íslenski boltinn

Þróttur reynir að stoppa í götin í varnarleiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þróttur heldur áfram að bæta við sig leikmönnum fyrir seinni hluta tímabilsins.

Í dag gengu Þróttarar frá samningum við varnarmennina Baldvin Sturluson og Guðmund Friðriksson.

Baldvin kemur frá Val en hann skrifaði undir samning sem gildir til út tímabilið. Baldvin er 27 ára uppalinn Stjörnumaður sem hefur einnig leikið með Breiðabliki.

Guðmundur kemur á láni frá Breiðabliki en þessi 22 ára gamli bakvörður hefur leikið 11 leiki í efstu deild með Blikum. Hann hefur einnig leikið með Selfossi og Augnabliki.

„Ég gæti ekki verið ánægðari. Báðir leikmenn eru frábærar viðbætur og henta leikstíl okkar fullkomlega. Þeir eru virkilega tilbúnir í slaginn og munu reynast Þrótti dýrmætir liðsmenn,“ segir Gregg Ryder, þjálfari Þróttar, í yfirlýsingu frá félaginu.

Áður voru Þróttarar búnir að fá framherjann Björgvin Stefánsson og danska miðjumanninn Christian Nikolaj Sörensen í félagaskiptaglugganum sem opnaði á föstudaginn.

Björgvin og Christian spiluðu báðir sinn fyrsta leik fyrir Þrótt þegar liðið tapaði 2-0 fyrir Víkingi R. í gær. Þróttarar eru aðeins með sjö stig í tólfta og neðsta sæti Pepsi-deildinni, sex stigum frá öruggu sæti. Varnarleikurinn hefur verið aðal höfuðverkur Þróttara en þeir hafa fengið á sig 30 mörk í 11 deildarleikjum í sumar.


Tengdar fréttir

Þróttur veðjar á þriðja Danann

Þróttur hefur samið við danska miðjumanninn Christian Nikolaj Sørensen um að leika með liðinu út tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×