Innlent

Þróar nýtt jarðvarmakerfi fyrir Ungverja

Frá Búdapest Mannvit fékk veglegan styrk frá framkvæmdastjórn ESB til að þróa jarðvarmaverkefni í Ungverjalandi, sem gæti meðal annars nýst til raforkuframleiðslu.Nordicphotos/Getty
Frá Búdapest Mannvit fékk veglegan styrk frá framkvæmdastjórn ESB til að þróa jarðvarmaverkefni í Ungverjalandi, sem gæti meðal annars nýst til raforkuframleiðslu.Nordicphotos/Getty
„Þetta er mikil viðurkenning fyrir okkur en sýnir ekki síður traust á íslensku hugviti í orkumálum,“ segir Eyjólfur Árni Rafnsson, forstjóri verkfræðistofunnar Mannvits, um styrk upp á 40 milljónir evra, jafngildi hátt í sjö milljarða króna, úr NER300-áætlun framkvæmdastjórnar ESB til að þróa jarðvarmaverkefni í Ungverjalandi. Verkefnið var eitt af 23 grænum orkuverkefnum sem hlutu styrk að þessu sinni.

Heildarkostnaðurinn við verkefnið, sem hefur verið í undirbúningi í tæp tvö ár, er um 100 milljónir evra. Hinn hluti fjármögnunarinnar kemur frá ungverska fjárfestingafyrirtækinu EU-Fire, en verkefnið er einnig unnið í samstarfi við stjórnvöld þar í landi.

Í því felst að hanna kerfi þar sem borað er niður í heitt berg þar sem eru boraðir út vatnsgangar. Vatni er svo dælt þar niður í gegnum það upp aftur í hringrás í lokuðu kerfi. Varmann á svo að nota til raforkuframleiðslu og hitunar húsa.

„Þetta skiptir sköpum fyrir okkur og við miðum að því að hefja boranir á næsta ári. Það er vonandi að það takist,“ segir Eyjólfur. Hann segir gert ráð fyrir að tíu til fimmtán megavött fáist úr hverri holu.

„Það er ef til vill ekki mikið fyrir okkur Íslendinga en þegar miðað er við aðstæður hér í Ungverjalandi, þar sem notað er gas, munar það nokkru. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×