Innlent

Þrír á slysadeild eftir eldsvoða í fjölbýlishúsi

Einn maður hlaut reykeitrun og tveir aðrir voru fluttir á slysadeild til rannsókna eftir að eldur kviknaði í íbúð í fjölbýlishúsi við Iðufell í Reykjavík um klukkan hálf tólf í gærkvöldi.

Þetta er næst stærsta fjölbýlishús landsins og var allt tiltækt slökkvilið sent á staðinn. Reykkafarar, sem fóru fyrstir inn í íbúðina fundu húsráðanda í svefnherbergi og björguðu honum út um glugga þar sem eldur og reykur vörnuðu honum útgöngu um útidyrnar.

Tíu íbúðir eru í stigaganginum og voru íbúar þeirra hvattir til að halda kyrru fyrir og þétta með hurðum fram á ganginn. Þrátt fyrir það komst reykur inn í að minnsta kosti tvær íbúðir.

Slökkvistarf gekk vel og eftir að stigagangurinn hafði verið reykræstur héldu margir íbúar út í strætisvagn þar sem fólk frá Rauða krossinum tók á móti því og veitti því áfallahjálp. Flestir snéru svo aftur til síns heima, en tvær fjölskyldur gistu annarsstaðar. Eldurinn kviknaði í stofu íbúðarinnar, en eldsupptök eru ókunn.   




Fleiri fréttir

Sjá meira


×