Innlent

Þriggja ára aðlögun dugði ekki félögum

Elimar Hauksson skrifar
Enn virðist nokkuð í land til að jafna hlutskipti kynjanna í stjórnum fyrirtækja.
Enn virðist nokkuð í land til að jafna hlutskipti kynjanna í stjórnum fyrirtækja.
Samkvæmt nýrri úttekt Creditinfo sem unnin var fyrir Samtök atvinnulífsins uppfyllir rétt rúmlega helmingur fyrirtækja með fleiri starfsmenn en 50 á ársgrundvelli skilyrði laga um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja.

Lögin kveða á um að hvort kyn skuli eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórn er skipuð þremur mönnum og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír í slíkum félögum, þá skuli tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%.

Ákvæði um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja voru færð í hluta- og einkahlutafélagalög árið 2010 og fengu fyrirtæki þriggja ára aðlögunartíma áður en ákvæðin tóku gildi, 1. september 2013.

Konur voru um 31 prósent stjórnarmanna í íslenskum fyrirtækjum með fleiri en 50 heilsársstarfsmenn í árslok 2013 en hlutfall karla var 69 prósent.

Lögin ná til 287 íslenskra fyrirtækja, en af þeim uppfylla einungis 152 fyrirtæki skilyrði laganna.

Í úttektinni kemur fram að ætli íslensk fyrirtæki sér að ná að uppfylla skilyrði laganna þurfi þau að kjósa inn 100 konur á kostnað karla sem eru fyrir í stjórnum.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir ljóst að miðað hafi talsvert í rétta átt og að hlutfall hafi hækkað þó nokkuð á stuttum tíma. Enn vanti þó nokkuð uppá til að hinu lögbundna 40 prósenta markmiði verði náð.

„Við fórum í þessa athugun af tveimur ástæðum. Annars vegar með hliðsjón af samningi okkar við viðskiptaráð og Félag kvenna í atvinnurekstri frá árinu 2009 sem fól í sér markmið um að hlutfall hvors kyns yrði ekki undir 40 prósentum í lok árs 2013. Hins vegar vildum við vekja athygli á þessu í aðdraganda aðalfunda fyrirtækja sem eru framundan. Við bindum vonir við að ná settum markmiðum á þessu ári,“ segir Þorsteinn.

Sambærilegt ákvæði hefur verið sett í lög um lífeyrissjóði og segir Þorsteinn sjóðina hafa náð tilsettum markmiðum.

„Það hefur náðst gott jafnvægi í lífeyrissjóðunum og er hlutfallið 47 prósent þar. Hér hjá SA eru konur til dæmis meirihluti okkar fulltrúa í þeim stjórnum, 56 prósent,“ segir Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×