Erlent

Þriðji hver jarðarbúi er fátækur

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Krakkar á Gasasvæðinu eru meðal þeirra jarðarbúa sem hafa ekki notið framfara síðustu áratuga.
Krakkar á Gasasvæðinu eru meðal þeirra jarðarbúa sem hafa ekki notið framfara síðustu áratuga. vísir/epa
Þriðji hver íbúi jarðarinnar býr enn við erfið lífsskilyrði þrátt fyrir að miklar framfarir hafi orðið síðustu 26 árin.

Þetta kemur fram í nýrri Þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna, sem gefin er út árlega.

„Mannkynið hefur náð miklum árangri við að vinna bug á örbirgð, bæta aðgang fólks að menntun, heilbrigðisþjónustu og hreinlæti og við að gefa konum og stúlkum fleiri möguleika,“ sagði Helen Clark, fyrrverandi forsætisráðherra Nýja-Sjálands og núverandi yfirmaður Þróunarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, þegar skýrslan var kynnt í Svíþjóð.

„En þessi árangur,“ bætti hún við, „er aðeins forleikurinn að næstu verkefnum, sem gætu orðið enn erfiðari, og snúast um að tryggja það að alþjóðlegar framfarir nái til allra.“

Í skýrslunni er sértök athygli vakin á því að ákveðnir hópar fólks eiga erfiðara en aðrir með að bæta hag sinn og njóta þeirra framfara sem þó hafa orðið.

Almennt séð eru konur til dæmis fátækari en karlar. Þær hafa lægri tekjur og færri tækifæri á flestum sviðum lífsins. Í hundrað löndum er þeim bannað að stunda ákveðin störf og í átján löndum þurfa konur samþykki eiginmanns síns til að stunda vinnu utan heimilisins. Þá eiga íbúar í dreifbýli oft erfiðara með að njóta framfaranna en borgarbúar. Börn utan þéttbýlis eru til dæmis líklegri til að ná minni árangri í skóla.

Flóttafólk á oft erfitt með að fá vinnu, komast í skóla og taka þátt í stjórnmálum. Sama gildir um fólk sem flytur á milli landa.

Þá verða þjóðernisminnihlutahópar oft fyrir fordómum og mismunun í samfélaginu og sama á við um samkynhneigt fólk og aðra hópa sem ekki eru gagnkynhneigðir. Helen Clark sagði mikilvægt að útrýma þeirri djúpstæðu mismunun sem býr í hefðum og reglum samfélagsins og breyta því hve miserfitt fólk á með að taka þátt í stjórnmálum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×