Innlent

Þríburaeyjan Grímsey: Þríburarnir sem fæddust um helgina skyldir öðrum eineggja þríburum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Til vinstri má sjá þríburana sem fæddust á Akureyri árið 1977 og eru frá Grímsey. Á efri myndinni til hægri má sjá þá ásamt systur sinni. Og þar fyrir neðan má sjá Karin Kristiansen, sem fæddi eineggja þríbura aðfaranótt sunnudags.
Til vinstri má sjá þríburana sem fæddust á Akureyri árið 1977 og eru frá Grímsey. Á efri myndinni til hægri má sjá þá ásamt systur sinni. Og þar fyrir neðan má sjá Karin Kristiansen, sem fæddi eineggja þríbura aðfaranótt sunnudags. Myndir/Úr einkasafni
Þríburarnir sem Jóhann Helgi Heiðdal og Karin Kristiansen eignuðust aðfaranótt sunnudags, eru skyldir þríburum sem fæddust á Akureyri árið 1977. Eru það þeir eineggja þríburar sem síðast fæddust hér á landi.

Þríeykin tvö eiga bæði ættir sínar að rekja til Ingu Jóhannesdóttur sem bjó stærstan hluta ævi sinnar í Grímsey. Auk þríbura eiga alls átta pör af tvíburum ættir sínar að rekja til Ingu.

Hulda Reykjalín Víkingsdóttir er barnabarn Ingu og amma þríburanna sem fæddust á Akureyri fyrir þrjátíu og sjö árum. Allir voru þeir drengir rétt eins og þríburarnir sem fæddust í Danmörku um helgina. Þeir voru skírðir Svafar, Konráð og Bjarni Gylfasynir og fæddust 14. september. Konráð lést af slysförum í júlí sumarið 1983 tæplega sex ára.

Hulda segir þetta mikla barnalán í ætt Ingu Jóhannesdóttur líklega mega rekja til góða loftsins í Grímsey.

„Það er yndislegt að fá að fylgjast með öllum þessum börnum og fá að vera hluti af lífi þeirra," segir hún og víkur máli sínu að þríburum sem fæddust á Akureyri fyrir næstum fjórum áratugum og eru barnabörn hennar.

„Þeir voru eins og litlar perlur. Allir alveg eins. Tveir þeirra búa enn í Grímsey, en við misstum einn þegar hann var sex ára."

Mikið samband

Hulda útskýrir tengsl þríburanna. „Ég er amma þeirra sem fæddust árið 1977 og síðan er móðursystir mín langalangamma þeirra sem fæddust aðfaranótt sunnudagsins."

Hún segir að mikil samskipti séu á milli fjölskyldna þríburanna. Dóttir Huldu, sem er móðir þríburanna sem fæddust á Akureyri, er í miklu sambandi við ömmu þríburanna sem fæddust í Danmörku. Þannig að tengslin eru talsverð.

Hulda á enn fleiri sögur af frjósemi.

„Langafi minn eignaðist líka þríburasystur. En það er auðvitað mjög langt síðan og þær lifðu ekki lengi. Síðan á ég tengdason sem er kominn af gríðarlegum frjósemismanni, Jónasi frá Hróarsdal. Það eru þríburar í þeirri fjölskyldu líka." Í Þjóðviljanum, frá 1. ágúst 1985, kemur fram að Jónas Jónsson frá Hróarsdal á Hegranesi í Skagafirði hafi eignast 33 börn, þar af 26 með eiginkonum sínum.

Hulda segist vera himinlifandi með öll þessi börn.

„Þetta eru auðvitað bara forréttindi. Þetta er bara alveg yndislegt."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×