Skoðun

Þorirðu, viltu og geturðu?

Þóranna K. Jónsdóttir skrifar
Í kvenréttindasöngnum Áfram stelpur segir „þori ég, vil ég, get ég?“ og svarað er „já ég þori, get og vil“. En þorum við og viljum í raun?

Það hefur verið mikið fjallað um jafnrétti kynjanna á ýmsum sviðum. Ég er sammála því að meira þarf að gera til að tryggja jafnrétti. En í dag vil ég skamma okkur stelpurnar. Við erum nefnilega oft sjálfum okkur verstar.

Engar súkkulaðikleinur í rekstri!

Ég og aðrir sem unnið hafa með konum í rekstri erum almennt sammála um að auk þess að umhverfið geri okkur oft erfiðara fyrir þá gerum við okkur enga greiða sjálfar. Algengt er að við rukkum of lítið fyrir vörur okkar og þjónustu og hugsum allt of smátt. Sem mentor í frumkvöðlapró­grömmum sé ég allt of oft hræðslublik í augum kvenna þegar ég tala um hvert væri hægt að fara með viðskiptahugmyndina og hvet þær til að hugsa stórt. Og þegar kemur að því að selja þá er eins og mörgum finnist ljótt að selja og ljótt að græða.

Steininn tekur svo alveg úr þegar kemur að konum og tækni því við erum margar hræddari við tölvuna og það sem í henni býr en við tröll og forynjur. Þetta á við konur á öllum aldri og á öllum menntunarstigum. Staðreyndin er sú, fyrir konur í rekstri, að þær sem ekki nýta sér tæknina munu klárlega dragast aftur úr þeim samkeppnisaðilum sem gera það. Það er engin forgjöf í viðskiptum. Það er ekki hægt að vera með og fá að vera súkkulaðikleina.

Þú verður að þora og vilja!

Ég á níu ára stelpu. Eitt það dýrmætasta sem ég get gefið henni er sterk sjálfsmynd og sjálfsöryggi. Vissan um að hún getur allt sem hún vill og ætlar sér. Sem betur fer fæ ég hjálp til dæmis frá aðilum eins og Skema sem vinna markvisst í að byggja upp sjálfsmynd stelpna og að eyða tæknifóbíu. Fyrir okkur sem eldri erum liggur þetta alfarið hjá okkur sjálfum. Við verðum að ætla okkur að breyta þessu.

Ef við þorum ekki, viljum ekki og getum ekki sjálfar, þá er ekki hægt að ætlast til að aðrir trúi á okkur og veiti okkur sömu tækifæri og strákarnir fá. Það mun enginn breyta þessu nema við sjálfar. Við hvað ertu hrædd? Hvað viltu? Ef þú þorir og vilt þá muntu geta!




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×