Íslenski boltinn

Þórarinn Ingi: Okkar mottó er að gefast aldrei upp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórarinn Ingi Valdimarsson.
Þórarinn Ingi Valdimarsson. Mynd/Anton
Þórarinn Ingi Valdimarsson var hetja Eyjamanna í kvöld þegar hann tryggði liðinu 1-0 sigur á Val með stórkostlegu skoti utan teigs þegar 90 mínútur voru nýkomnar upp á vallarklukkuna.

„Þetta gerist ekki sætara en þetta en þetta er jafnframt í annað skiptið á tímabilinu sem við klárum leik svona og það er bara frábært," sagði Þórarinn Ingi en Tryggvi Guðmundsson tryggði ÍBV 1-0 sigur á Fram í 1. umferð með marki á 93. mínútu.

„Ég held að ég hafi ekki skorað sætara mark en maður skorar nú ekki mörg mörk og þegar boltinn dettur loksins inn hjá manni þá er bara ágætt að gera þetta svona," sagði Þórarinn kátur en ÍBV-liðið var manni færri allan seinni hálfleikinn.

„Við spiluðum vel eftir að við misstum manninn útaf og vorum ekki að gefa mikið af færum á okkur. Við leyfðum þeim að koma boltanum fyrir en ætluðum bara að vinna boltann í loftinu. Við spiluðum frábærlega í seinni hálfleik og það gekk allt upp. Við gefumst aldrei upp og það er mottóið okkar. Við ætlum að klára alla leiki af fullum krafti og það skilaði okkur þremur stigum ídag," sagði Þórarinn.

„Þetta er fínn völlur til þess að starta tímabilinu almennilega. Við vorum ekki að spila sannfærandi í fyrstu tveimur leikjunum en nú erum að sýna það að við getum þetta alveg. Það var upphafið að einhverju góðu þegar við náðum stigi hér á móti þeim í fyrra manni færri og af hverju ekki núna," sagði Þórarinn en ÍBV náði 1-1 jafntefli á móti Val á Vodafone-vellinum á svipuðum tíma í fyrra þrátt fyrir að missa mann af velli snemma í fyrri hálfleik.




Tengdar fréttir

Andri: Okkur fannst allavega gaman í þessu afmæli

Andri Ólafsson, fyrirliði ÍBV, var að sjálfsögðu kátur eftir 1-0 sigur á Val á Vodafonevellinum í kvöld. Eyjamenn spiluðu manni færri allan seinni hálfleikinn en tókst að tryggja sér 1-0 sigur með marki Þórarins Inga Valdimarssonar í uppbótartíma.

Kristján: Við áttum að skora í fyrri hálfleik

Kristján Guðmundsson, þjálfari Vals, var ekki sáttur með leik sinna manna í seinni hálfleik í kvöld en Valsmenn nýttu það illa að vera manni fleiri á móti ÍBV og fengu síðan á sig mark í uppbótartíma.

Atli Sveinn: Þetta var mjög svekkjandi

Valsmenn sofnuðu á verðunum í kvöld og fengu á sig mark í uppbótartíma sem kostaði liðið 0-1 tap fyrir ÍBV í 100 ára afmælisveislu félagsins. Valsmenn voru manni fleiri allan seinni hálfleikinn en tókst ekki að nýta sér það.

Umfjöllun: Stórglæsilegt sigurmark Þórarins eyðilagði afmælisveisluna

Þórarinn Ingi Valdimarsson tryggði Eyjamönnum 1-0 sigur á Val og sá til þess að Valsmenn fóru stigalausir heim úr 100 ára afmælisveislunni á Vodavone-vellinum í kvöld. Eyjamenn spiluðu manni færri allan seinni hálfeikinn en tókst að halda aftur af heimamönnum áður en Þórarinn skoraði sigurmarkið með stórkostlegu skoti í uppbótartíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×