Innlent

Þingmenn Sjálfstæðisflokks vilja koma í veg fyrir spillingu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Óli Björn Kárason, Guðlaugur Þór Þórðarson og Brynjar Níelsson eru flutningsmenn frumvarpsins.
Óli Björn Kárason, Guðlaugur Þór Þórðarson og Brynjar Níelsson eru flutningsmenn frumvarpsins. vísir
Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingu á upplýsingalögum. Megintilgangur frumvarpsins er meðal annars til að tryggja betri meðferð á opinberu fé og til að koma í veg fyrir spillingu.

Frumvarpið snýr að opinberum stofnunum; stjórnvöldum og lögaðilum, sem eru að 51 prósent hluta eða meira í eigu hins opinbera og að þeim verði gert skylt að birta opinberlega sundurgreindar upplýsingar um kaup á vöru og þjónustu yfir 150 þúsund krónur í hverjum almanaksmánuði.

„Markmið frumvarpsins er ekki aðeins að tryggja betri meðferð opinbers fjár og draga úr sóun heldur ekki síður að vinna gegn hvers konar spillingu sem fær aðeins þrifist þegar upplýsingum er haldið leyndum eða aðgangur almennings að upplýsingum er torveldaður,“segir í frumvarpinu.

Með þessu verði tryggður aðgangur almennings, fjölmiðla, fræðimanna og félagasamtaka að upplýsingum um hvernig opinberir aðilar, jafnt á vegum ríkis og sveitarfélaga, verji sameiginlegum fjármunum. Birting þeirra muni leiða til aukins aðhalds með hinu opinbera og þar með tryggja betur að hið opinbera verji fjármunum af skynsemi og ráðdeild.

Flutningsmenn eru þeir Óli Björn Kárason, Guðlaugur Þór Þórðarson og Brynjar Níelsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×