Fótbolti

Þarf að þakka þeim traustið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Viðar skoraði 14 mörk í 20 deildarleikjum fyrir Malmö.
Viðar skoraði 14 mörk í 20 deildarleikjum fyrir Malmö. vísir/getty
Viðar Örn Kjartansson verður fyrsti Íslendingurinn til að spila í ísraelsku úrvalsdeildinni en hann gerði í gærmorgun fjögurra ára samning við Maccabi Tel Aviv, sigursælasta lið landsins.

Samkvæmt fjölmiðlum í Ísrael greiðir Maccabi Tel Aviv tæpan hálfan milljarð króna fyrir Viðar Örn sem er eftir 20 umferðir markahæsti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar með fjórtán mörk.

Viðar kom til Svíþjóðar í upphafi ársins frá Jiangsu í Kína sem keypti hann frá Vålerenga í Noregi á sínum tíma. En þó svo að önnur félög hafi sýnt honum áhuga í sumar bjóst Viðar Örn ekki við því að fara frá Malmö eftir svo skamma dvöl í Svíþjóð.

„Þeir höfðu sýnt mér áhuga í nokkurn tíma en ég hafði ekki áhuga á að fara í burtu og var því lítið að pæla í því. Önnur félög í löndum sem voru mun nær en Ísrael gerðu líka tilboð en þau voru allt of lág að mati félagsins,“ sagði Selfyssingurinn enn fremur.

Tilboð Maccabi Tel Aviv var það gott að félagið taldi sig ekki geta hafnað því, þó svo að liðið vildi ekki missa sinn markahæsta leikmann.

Árangur í tíð Cruyff

Maccabi Tel Aviv hefur 21 sinni orðið ísraelskur meistari en hafnaði í öðru sæti deildarinnar í fyrra eftir harða baráttu við Hapoel Be'er Sheva.

Jordi Cruyff, sonur Johans Cruyff og fyrrum leikmaður Barcelona og Manchester United, hefur gegnt stöðu íþróttastjóra félagsins síðan 2012 en á þeim tíma hefur það barist um alla titla heima fyrir og spilað reglulega í Evrópukeppnum.

Liðið komst í gegnum allar fjórar umferðir forkeppni Evrópudeildar UEFA í sumar og dróst í riðil með Zenit St. Pétursborg, AZ og FH-bönunum í Dundalk frá Írlandi.

Viðar hefur skorað grimmt síðan hann fór í atvinnumennsku.vísir/getty
Dæla boltum í teiginn

Georgíumaðurinn Shota Arveladze, fyrrum leikmaður Ajax og Rangers, var ráðinn þjálfari Maccabi Tel Aviv í vor og segir Viðar að skilaboðin frá honum væru að framherjar liðsins fái úr miklu að moða.

„Liðið er allt vel spilandi og með kantmenn sem eru duglegir að dæla boltum inn í teiginn. Ég er ekki í vafa um að ég mun fá færin, það er þá bara spurning um að nýta þau,“ segir Viðar sem hefur verið einkar iðinn við kolann hvar sem hann hefur spilað.

„Það eru miklar væntingar á mínum herðum og maður vill hafa pressu á sér. Þeir voru með tíu aðra framherja sem félagið var tilbúið að kaupa á lokadegi félagaskiptagluggans en voru svo sannfærðir um að ég væri rétti maðurinn að þeir biðu í nokkrar vikur með að fá svar frá mér,“ segir framherjinn.

„Ég þarf því að þakka þeim traustið. Og ég get ekki beðið eftir að byrja.“

Eins og spænsk stórborg

Viðar Örn þekkir það vel að spila á framandi slóðum eftir dvöl sína í Kína og segir að sér hugnist vel að spila í Ísrael.

„Þetta er vissulega öðruvísi. Flestir knattspyrnumenn myndu sjálfsagt kjósa að spila í löndum eins og Englandi og Þýskalandi. En það eru góð lið og góðar deildir út um allt,“ segir hann.

„Ég þekkti ekki mikið til Tel Aviv áður en ég kom og fyrst og fremst voru kynni mín af Ísrael í gegnum fjölmiðla,“ segir hann og vísar til þeirra misgóðu frétta sem hafa borist frá þeim heimshluta á undanförnum árum.

„En borgin er algjörlega mögnuð. Þetta er eins og að vera í stórborg á Spáni. Maður hefði aldrei valið sér að koma til Ísraels og spila hér nema vera algjörlega sáttur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×