Skoðun

Það sem tekið hefur verið í burtu hækkar ekki

Sigurður Már Jónsson skrifar
Því hefur verið haldið fram að undanförnu að hætta sé á að verðbólga éti upp höfuðstólsleiðréttingu húsnæðislána, Leiðréttinguna. Það er alrangt. Þvert á móti, það munar enn meira um Leiðréttinguna eftir því sem verðbólga er hærri.

Það stafar af því að verðbólga getur ekki hækkað það sem búið er að taka í burtu. Lánið mun hugsanlega ná sömu upphæð aftur, en sú upphæð verður alltaf lægri en hefði lánið ekki verið leiðrétt. Sá hluti lána sem búið er að færa niður bætist ekki ofan á lánin aftur. Það er því rangt að tala um að verðbólga éti upp Leiðréttinguna.

Í raun skiptir Leiðréttingin enn meira máli ef verðbólga hækkar, vegna þess að óleiðrétt lán hefði hækkað enn meira en leiðrétta lánið gerir. Vægi Leiðréttingarinnar í krónum talið eykst með meiri verðbólgu en minnkar við verðhjöðnun. Og munurinn á greiðslum er satt að segja sláandi.

Til að sjá þennan mun svart á hvítu má t.d. bera saman tvö dæmi af hjónum sem árið 2007 taka 15 milljóna jafngreiðslulán til 40 ára á 4,15% vöxtum.

Í fyrra dæminu er verðbólga 2% út lánstímann. Vegna Leiðréttingarinnar greiða hjónin rúmum 10 milljónum króna minna í afborganir á líftíma lánsins en þau hefðu gert án Leiðréttingarinnar.

Í seinna dæminu er verðbólga 6% út lánstímann. Vegna Leiðréttingarinnar greiða hjónin um 22 milljónum króna minna í afborganir á líftíma lánsins en þau hefðu gert án Leiðréttingarinnar.

Munurinn á greiðslum hjónanna ef verðbólga er 2% eða 6% er því um 12 milljónir króna.

Flestum er kunnugt að það borgar sig alltaf að borga inn á verðtryggt lán, því það leiðir til þess að lægri verðbætur leggjast á lánið til framtíðar en án þeirrar inngreiðslu. Það má því vera öllum ljóst að verðbólga étur ekki upp ávinning heimilanna af Leiðréttingunni. Sá ávinningur heldur gildi sínu þótt verðbólga hækki, einfaldlega vegna þess að það sem hefur verið tekið í burtu hækkar ekki.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×