Lífið

Það er ekkert til sem heitir eðlilegt fjölskyldumynstur

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Sigga, Hilmar og Kári Valur. Það leynir sér ekki hver það sem er sem ræður í þessari fjölskyldu.
Sigga, Hilmar og Kári Valur. Það leynir sér ekki hver það sem er sem ræður í þessari fjölskyldu. Vísir/Daníel
Það er hamingjusöm fjölskylda sem bregður á leik á Miklatúninu einn sólarmorgun í vikunni. Hilmar Magnússon og Sigríður Birna Valsdóttir snúast í kringum soninn, Kára Val, sem er fimmtán mánaða hjartaknúsari sem þau sjá ekki sólina fyrir, frekar en aðrir foreldrar. Það sem er óvenjulegt við þessa fjölskyldu er að Sigga Birna, eins og hún er kölluð, og Hilmar hafa aldrei verið par, enda bæði samkynhneigð, og Sigga er í sambúð með Faye Rickett sem þar af leiðandi er einnig móðir Kára Vals, hún er hins vegar erlendis og fjarri góðu gamni þennan dag. Þau blása á að það sé eitthvað flókið við þetta fjölskyldumynstur.

Sigga: „Á ekki annað hvert barn á Íslandi tvær mömmur eða tvo pabba eða hvort tveggja? Það er enginn að pæla í því lengur.“

Sigga og Hilmar hafa þekkst í níu ár og urðu fljótt perluvinir. Fyrir sex árum tóku þau þá ákvörðun að eignast saman barn en það tók fimm ár.

Sigga: „Ég hafði alltaf hugsað mér að eignast barn þótt ég vissi ekki alveg hvernig fyrr en við Hilmar ákváðum að gera þetta saman. Það er hins vegar ekkert gefið að maður geti eignast barn strax þannig að það þurfti margar tilraunir áður en það tókst. Það er mjög misjafnt hvaða leiðir lesbíur fara til að eignast börn, margar þeirra hafa farið þá leið að nota sæðisgjafa. Ég virði það og það er mjög mikilvægt að það sé hægt að velja þá leið. Margar yndislegar fjölskyldur hafa orðið til þannig, en það hentaði mér ekki vegna þess að mig langaði að deila þessu hlutverki með einhverjum öðrum og hafa fleiri í lífi barnsins. En ég vil ítreka það að okkar leið er ekkert réttari en aðrar, þetta er bara ein leið af mörgum til að skapa fjölskyldu.“

Búinn að afskrifa barneignir

Hilmar: „Við vorum bæði einhleyp þegar við tókum þessa ákvörðun og ég var eiginlega búinn að afskrifa það að eignast börn. En þegar Sigga fór að tala um að við gerðum þetta saman þá fannst mér það alveg kjörið. Þegar ég kom út úr skápnum fyrir bráðum tuttugu árum þá var viðkvæðið alltaf: Já, frábært, en samt leiðinlegt að þú getir aldrei eignast börn. Maður hélt bara að það væri ekkert inni í myndinni.“

Sigga: „Nokkrum mánuðum eftir að við ákváðum þetta kynntist ég Faye og hún tók þátt í öllu ferlinu. Löggjöfin er þó ennþá þannig að barn getur einungis átt tvo lögformlega foreldra þannig að hún er ekki skráð móðir hans, þótt hún sé það auðvitað.“

Hilmar: „Þetta er eitt af því sem Samtökin '78 eru að skoða. Það er búið að breyta löggjöfinni í Belgíu og fleiri löndum á þann veg að lögforeldrar geti verið fleiri og vonandi kemur að því hér líka. Það myndi gagnast miklu fleirum en samkynhneigðum því fjölskyldumynstur hafa breyst svo mikið og það er ekkert óalgengt að barn alist upp með þremur til fjórum foreldrum svo það er augljóst að lögin eru ekki í samræmi við raunveruleikann í þessu efni.“

Sigga: „Þótt Faye sé réttlaus sem móðir gagnvart lögunum þá hef ég engar áhyggjur af því, ég veit að þau Hilmar myndu koma sér saman um fyrirkomulag ef eitthvað kæmi fyrir mig. Við erum öll mjög góðir vinir, sem er oft ekki tilfellið þegar fólk hefur skilið, og engin vandamál hafa komið upp.“

Hilmar: „Sumir hafa sagt að svona fyrirkomulag sé eins og hjá skilnaðarbörnum „without the hard feelings“. Það er auðvitað einföldun en það hafa aldrei komið upp nein vandamál hjá okkur. Eðlilega hefur Kári Valur hingað til verið mest hjá mæðrum sínum enda svo lítill en við erum búin að ganga frá sameiginlegu forræði hjá sýslumanni og hann er farinn að vera meira hjá mér seinustu mánuðina og verður hjá mér helminginn af tímanum í framtíðinni.“

Vá, hvað hann er ríkur

Hilmar er frá Ísafirði og Sigga Birna ólst upp á Neskaupstað frá fjögurra til sautján ára aldurs. Þau segjast hvorugt hafa þekkt neitt samkynhneigt fólk þegar þau voru að alast upp og ekki komið út úr skápnum fyrr en þau voru flutt suður. Er erfiðara að koma út í litlum samfélögum?

Hilmar: „Ég flutti frá Ísafirði þegar ég var 21 árs, um það bil sem ég kom út. Það var ekkert rosalegur stuðningur fyrir vestan en ekki andstaða heldur, það var eiginlega bara þögn. Það var bara ekkert talað um þessi mál og það litla sem maður heyrði var yfirleitt neikvætt. Á þeim tíma var það mikill léttir að komast frá Ísafirði og ég held það sé enn þá yfirleitt þyngri róður fyrir fólk úti á landi að koma út úr skápnum. Hinsegin fólk hefur yfirleitt alltaf leitað í borgarsamfélög þar sem við erum ekkert það mörg og því stærra sem samfélagið er, þeim mun líklegra er að þú finnir umgangskreðs sem þú passar inn í.“

Sigga: „Þetta er samt að breytast. Samkynhneigt fólk er að flytja út á land með fjölskyldur sínar, reyndar aðallega konur með börn, og ég veit ekki til þess að þessar fjölskyldur hafi lent í neinum vandræðum. Yfirleitt eru þessi samfélög alveg frábær. Ég held það sé bara mjög gott að búa á Íslandi ef þú ert samkynhneigður. En auðvitað vitum við það að baráttunni er ekki lokið. Það kemur stundum skrítinn svipur á fólk þegar maður segir að Kári Valur eigi tvær mömmur og einn pabba. Það eru ekki beint fordómar heldur meira bara þekkingarleysi og svo auðvitað þessi ægilega forvitni að fá að vita hvernig hann varð til. Maður fær stundum alveg nóg af henni.“

Hilmar: „Þeir sem hafa fordóma eða einhverja andúð fara strax í stellingar: Ha? Tvær mæður? Bíddu, er það ekki líffræðilega ómögulegt? Og eru þar með að gengisfella hugtakið foreldri. Þegar ég tók við formennsku í samtökunum '78 fór ég í viðtal við DV þar sem ég kom inn á þetta og þar var mikið kommentað um að þetta væri nú eitthvað skrítið og þyrfti að útskýra betur. Ég viðurkenni að stundum pirrast maður en ég hef ákveðið að setja sjálfan mig í það hlutverk að fræða frekar en pirrast, það er bara þegar þetta verður persónulegt sem maður verður þreyttur á þessu. Einhver Facebook-vinkona mín sem ég þekki varla nokkuð vatt sér til dæmis að mér úti á götu og spurði hvernig við hefðum gert þetta. Þessi framhleypni getur orðið alveg ótrúleg.“

Sigga: „Algengustu viðbrögðin eru samt: Vá, hvað hann er ríkur!“

Fjölskyldur eru alls konar

Hilmar er alþjóðafulltrúi hjá Reykjavíkurborg og formaður Samtakanna '78 og Sigga Birna er fjölskyldu- og leiklistarmeðferðarfræðingur og kennari að mennt, kennir leiklist við Hagaskóla, er ráðgjafi hjá Samtökunum "78 og sjálfstætt starfandi meðferðarfræðingur. Faye er ensk og þær Sigga Birna eiga heimili bæði á Íslandi og í Englandi auk þess að dveljast öll sumur á Grikklandi þar sem Faye sinnir ferðaþjónustu. Kári Valur á því í raun fjögur heimili í þremur löndum og er orðinn ansi ferðavanur því hann hefur farið fjórtán sinnum í flug á sinni fimmtán mánaða ævi. Foreldrar hans segjast enda vera miklar flökkukindur og sammála um að tilkoma hans eigi ekki að breyta neinu um það.

Sigga: „Það skýrist auðvitað að hluta til af því að önnur móðir hans er erlend og hann á stóra fjölskyldu í Englandi líka. Svo er samfélagið sem við búum í á Grikklandi eins og ein stór fjölskylda. Auk þess á hann fjölskyldumeðlimi og ættingja út um allt Ísland, bæði blóðskylda og ekki skylda. Fjölskylda er nefnilega ekkert endilega bara þeir sem eru blóðskyldir, það er misskilningur.“

Hilmar: „Aðalatriðið er auðvitað að barnið fái ást og umhyggju. Fjölskyldumynstur er algjört aukaatriði.“

Sigga: „Það er ekki til nein rétt tegund af fjölskyldu. Fólk sem vinnur í skólakerfinu þekkir það að vera með tíu börn og engin tvö eiga eins fjölskyldu.“

Ekki sjálfstæðismaður!

Í allri þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um ættleiðingar samkynhneigðra hefur oft verið velt upp þeirri spurningu hvort samkynhneigð sé genetísk. Hilmar og Sigga Birna eru sammála um að sú umræða sé orðin ansi þreytt, enda sé ekkert sem bendi til þess að börn sem eiga eða alast upp hjá samkynhneigðum foreldrum séu frekar samkynhneigð en önnur börn.

Hilmar: „Þessi umræða er mjög viðkvæm, aðallega vegna þess að hún er notuð af mörgum til að sanna tilvistarrétt sinn. En mér persónulega finnst þetta frekar óáhugaverð umræða og þessi spurning ekki skipta neinu máli. Flest samkynhneigt fólk er fætt af gagnkynhneigðu fólki og ætti þá samkvæmt þessu að vera gagnkynhneigt.“

Sigga: „Það er mjög mikilvægt að það komi fram að börn verða ekki samkynhneigð af því að eiga samkynhneigða foreldra. Það er innihaldslaus klisja.“

Hilmar: „Og þó hann yrði samkynhneigður þá er það líka bara allt í lagi. Það skiptir okkur engu máli. Við ræddum líka þann möguleika að barnið myndi fæðast með Down's-heilkenni eða eitthvað slíkt og vorum alveg tilbúin að taka því. Það var aldrei spurning. Það kemur ekkert í veg fyrir að þú elskir barnið þitt.“

Sigga: „Ég hef eiginlega meiri áhyggjur af því að hann verði sjálfstæðismaður!“

Hilmar: „Minn stærsti ótti í þessu sambandi er að hann verði fótboltamaður, ég hef svo innilega lítinn áhuga á fótbolta, en að sjálfsögðu mun ég styðja hann í öllu því sem hann langar að gera. Ég á reyndar líka mjög erfitt með að sjá Siggu fyrir mér í hlutverki fótboltamömmunnar.“

Sigga: „Ég líka. En hin mamma hans hefur áhuga á boltaíþróttum og er meira í sportuppeldinu. Reyndar vorum við alveg viss um að hann væri stelpa fyrst á meðgöngunni og þegar við fengum að vita að þetta væri strákur voru viðbrögðin hjá mér og Hilmari eiginlega: Hvað eigum við að gera við strák? En að sjálfsögðu skiptir það engu máli, strákar og stelpur eiga ekki að fá mismunandi uppeldi að mínu mati, það sem skiptir máli er að börn fái uppeldi sem hentar þeirra persónuleika. Ég hef mikið verið að vinna með transfólki og það hefur vakið mig til umhugsunar um hvað samfélagið er fullt af stelpu- og strákadóti, flestar búðir sem selja barnavörur skipta þeim upp í strákavörur og stelpuvörur strax frá fæðingu, ég versla hiklaust í “stelpudeildinni” enda oft fallegri og litríkari vörur þar. Við klæðum hann í rautt og bleikt án þess að vera neitt að pæla í hvort það sé stráka- eða stelpulegt.“

Hilmar: „Það er skemmtilegast að sjá viðbrögðin hjá fólki þegar hann er kannski í bleikum buxum og fólk spyr hvað hún sé gömul og maður svarar að HANN sé fimmtán mánaða. Fólk fer gjörsamlega í fát og heldur að það hafi móðgað mann svakalega. En mér er alveg sama hvort fólk heldur að hann sé strákur eða stelpa. Hann er fyrst og fremst manneskja.“

Deila gildum og lífssýn

Þau Hilmar og Sigga segjast vera mjög samhent í uppeldinu, enda hafi þau svipuð gildi og áherslur. Það hafi aldrei komið til greina að setja hvort öðru skilyrði.

Sigga: „Eina skilyrðið sem Hilmar setti þegar við byrjuðum að ræða barneignir var að barnið yrði ekki skírt.“

Hilmar: „Auðvitað erum við ólíkar persónur, Faye, Sigga og ég, en við höfum þekkst mjög lengi og deilum gildum og lífssýn. Við renndum ekkert blint í sjóinn með það.“

Sigga: „Það sem er svo frábært er hvað við erum samt ólík. Þótt við séum hundrað prósent sammála um allt sem í rauninni skiptir máli í uppeldinu þá erum við að öðru leyti mjög ólík. Kári Valur fær mismunandi hluti frá hverju okkar og stórgræðir auðvitað á því.“

Spurð hvort þau séu kannski að hugsa um að eignast annað barn líta þau hvort á annað og skella upp úr.

Sigga: „Ja, við höfum reyndar rætt það, aðallega til að Kári Valur eignist systkini, en það tók fimm ár að eignast hann og ekkert gefið að það tækist þótt við reyndum. Það er nefnilega ekkert sjálfsagt að eignast barn. Það er mikil gjöf að þetta hafi tekist – og svona vel! Hann er mjög vel heppnað eintak, eins og öll börn eru auðvitað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×