Viðskipti innlent

Telur hagspá Seðlabankans full bjartsýna

Greining Arion banka telur Seðlabankann enn nokkuð bjartsýnan, bæði hvað varðar einkaneyslu og fjárfestingu í nýjustu hagspá sinni. Hagspáin var kynnt í Peningamálum í gærdag en þau komu út í tengslum við stýrivaxtaákvörðun bankans.

Greiningin fjallar um málið í Markaðspunktum sínum. Þar segir að eins og við var að búast lækkaði Seðlabankinn bæði spá sína um hagvöxt og verðbólgu frá síðustu Peningamálum í ágúst. Nú gerir Seðlabankinn ráð fyrir samdrætti á þessu ári uppá 2,6% (var 1,9%) og eins verður hagvöxtur á næsta ári minni sem má m.a. rekja til frekari tafa í stóriðjufjárfestingu.

„Hvað varðar næstu ár þá teljum við Seðlabankann enn nokkuð bjartsýnan, bæði hvað varðar einkaneyslu og fjárfestingu," segir í Markaðspunktunum.

„Í erindi aðalhagfræðings kom fram að væntanlega muni Hagstofan endurskoða hagvaxtartölur sínar uppá við fyrir fyrri árshelming ársins m.a. þar sem vísbendingar eru um að fjárfesting hafi verið meiri en rauntölur þeirra gerðu ráð fyrir. Þetta atriði skýrir e.t.v. hluta af mismuninum í okkar spá og þeirra á árinu 2010. Leiði endurskoðun Hagstofunnar hinsvegar til lítilla breytinga er ljóst að færa þarf spá Seðlabankans niður á við."

Þá segir að Seðlabankinn geri ráð fyrir að neysluvöxturinn verði 3,6% strax á næsta ári, sem er nokkuð kröftugur viðsnúningur miðað við að gert er ráð fyrir að kaupmáttur standi í stað og atvinnuleysi verði áfram hátt. Í sögulegu ljósi er þessi viðsnúningur þó ekki mikill, enda hefur reynslan sýnt okkur að einkaneysla taki almennt kröftuglega við sér að loknu samdráttarskeiði. Þó á greiningin bágt með að trúa því að forsenda hagvaxtar á næsta ári verði drifin af einkaneyslu.

„Að okkar mati eru forsendur hagvaxtar að atvinnulífið nái sér á strik en eins og staðan er í dag mun líða nokkur tími þar til atvinnulífið nær að rétta úr kútnum. Í millitíðinni má gera ráð fyrir að heimilin munu einnig eiga í basli. Í ljósi þessa er auðvelt að færa fyrir því rök að Seðlabankinn sé bjartsýnn hvað viðsnúninginn í einkaneyslu varðar á næsta ári," segir í Markaðspunktunum.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×