Erlent

Telur að nýjar upplýsingar muni ekki breyta niðurstöðunni

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Hillary Clinton er borubrött varðandi enduropnun rannsóknar Alríkislögreglu Bandaríkjanna á tölvupóstum hennar. Hún telur að frekari rannsókn muni ekki breyta fyrri niðurstöðu FBI um að ekki ætti að ákæra hana. Hún kallar eftir því að yfirmaður FBI útskýri nánar hverju nýja rannsóknin felist í.

James Comey, yfirmaður FBI, segir að nýjar upplýsingar í málinu hafi litið dagsins ljós. Um er að ræða tæki og pósta frá hinum umdeilda fyrrum þingmanni Anthony Wiener.

Gögnin komu í leitirnar þegar verið var rannsaka hvort að Wiener hafi sent 15 ára stúlku óviðeigandi skilaboð og pósta.

AP fréttaveitan segir að Hillary Clinton og starfsfólk hennar sé æft yfir því að Comey hafi sagt frá málinu í einkar óljósu bréfi til hóps þingmanna. Nokkrir klukkutímar liðu þar til í ljós kom að um gögn frá Weiner væri að ræða. Þá hefur stofnunin ekki svarað fyrirspurnum fréttaveitunnar vegna málsins.

Á blaðamannafundi í gær sagði Clinton að FBI þyrftu að útskýra málið hið snarasta.

Donald Trump, mótframbjóðandi hennar til embættis forseta, stökk á málið og sagði stuðningsmönnum sínum í Iowa að það væri deginum ljósara að FBI hefði ekki opnað málið á þessum tíma ef ekki væri um „stórfellda glæpi“ að ræða.

Fyrr á árinu rannsakaði FBI meðhöndlun Clinton á ríkisleyndarmálum þar sem hún notaði ekki öruggt tölvupóstfang sem skráð var á vefsvæði bandarísku ríkisstjórnarinnar heldur sitt eigið póstfang þegar hún starfaði sem utanríkisráðherra á árunum 2009 til 2013.

Ekki var mælt með að Clinton yrði ákærð vegna málsins. Þrátt fyrir það sagði FBI að Clinton hefði sýnt af sér alvarlega vanrækslu í starfi með tölvupóstnotkun sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×