Innlent

Telja sig fá 600 þúsund á mánuði flytji þeir til Íslands og giftist íslenskri konu

Jakob Bjarnar skrifar
Gríðarleg eftirspurn, vinabeiðnir streyma til íslenskra kvenna frá útlöndum.
Gríðarleg eftirspurn, vinabeiðnir streyma til íslenskra kvenna frá útlöndum. vísir/daníel
Á netinu gengur nú póstur þar sem fullyrt er að sár skortur á karlmönnum sé stórkostlegt vandamál á Íslandi. Fullyrt er að íslenskur ráðherra hafi boðið hverjum þeim erlenda karlmanni sem er reiðubúinn að flytja til Ísland og giftast íslenskri konu, það að sá fái á mánuði 5 þúsund dollara, sem er um 630 þúsund íslenskrar krónur.

Svo virðist sem fjölmargir leggi trúnað við þetta og hafa íslenskar konur sumar hverjar gripið til þess ráðs að loka fyrir þann möguleika á Facebook að hægt sé að senda þeim vinabeiðni. Slík er ásóknin.

Þórunn Ólafsdóttir, sem er vinnur stórmerkilegt starf í þágu sýrlenskra flóttamanna á landmærum Grikklands og Makedóníu en hún hlaut mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar á dögunum, tekur málið til umfjöllunar á sinni Facebooksíðu.

Þórunn Ólafsdóttir hefur gert þetta sérstæða mál að umfjöllunarefni á Facebooksíðu sinni.
„Allir eru að tala um Ísland. Nú gengur póstur um netið á arabísku þar sem segir að íslenskur ráðherra hafi lofað þeim útlendingum sem giftast Íslendingum fimmþúsund dollurum í brúðargjöf. Ástæðan er sögð vera að við þurfum fleira fólk því Ísland sé svo fámennt. Fólk tekur þessu með fyrirvara en þið getið ímyndað ykkur spurningaflóð dagsins,“ segir Þórunn.

Og með fylgir hlekkur á vefsíðu þar sem þessu er slegið upp, vefsíðu sem heitir The Spirit Whispers. Undir fréttinni, í athugasemdakerfinu, er mikil og forvitnileg umræða sem reyndar skiptist mjög í tvö horn.

Abdullah Khan er gott dæmi um viðhorf flestra: „im interested contact me ak669045@gmail.com“. Abdullah er ekki einn á ferð, fjölmargir karlmenn lýsa yfir miklum áhuga.

En, svo eru aðrir sem reyna að benda á að þetta sé hin mesta vitleysa. Ein þeirra sem reynir að skrúfa fyrir hana er Alexandra Elfa Fox: „On behalf of all Icelandic women , this is not true and no thanks!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×