Innlent

Tekist á um brennivín í búðum á Alþingi

Heimir Már Pétursson skrifar
Forseti Alþingis úrskurðaði í dag að afgreiðsla allsherjar- og menntamálanefndar á frumvarpi um sölu á áfengi í verslunum út úr nefndinni væri í samræmi við þingsköp. Þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna telja hins vegar að bellibrögðum hafi verið beitt við afgreiðslu málsins.

Þingmenn Samfylkingarinar og Vinstri grænna reiddust margir í síðustu viku þegar allsherjar- og menntamálanefnd afgreiddi frumvap Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um heimild til sölu áfengis í almennum verslunum út úr nefndinni til þriðju og síðustu umræðu. Telja þingmennirnir að Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður nefndarinnar, hafi sætt lagi þegar ýmsir aðalmenn í nefndinni voru fjarstaddir.

„Forseti vill vegna þeirra óska sem beindust að honum taka það fram að forseti gekk úr skugga um það að farið var í hvívetna eftir öllum lögum og reglum. Bæði þingsköpum og öðru því sem snýr að starfsemi nefndanna,“ sagði Einar K. Guðfinnson, forseti Alþingis, á þingfundi í dag. En þingmenn héldu því margir fram að farið hafi verið á svig við þingsköp og hefðir við afgreiðslu málsins.

„Hér voru þingmenn í góðri trú þegar þeir áttuðu sig á því að það átti að nýta sér fjarveru þeirra til að smygla út málum,“ sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist ekki átta sig á við hvað þingmenn væru hræddir.

„Það sem á að ráða úrslitum varðandi afgreiðslu mála á Alþingi er ekki staða, tímabundinn eða varanleg, í einstökum nefndum. Heldur staðan í þessum þingsal,“ sagði Birgir.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði þá þingmenn sem gerðu mál úr þessu vita að varamenn kæmu úr sömu flokkum og aðalmenn.

„Og eru hér að setja á svið eithvað mikið leikrit vegna þess að þeir þola ekki að málið komi til efnislegrar umræðu. Það er kannski eitthvað tengt því að þessir flokkar hafa verið og eru í þessu máli alveg ótrúlegt afturhald,“ sagði Bjarni.

„Vandinn er auðvitað sá að brennivín í búðirnar kemur blóðinu á hreyfingu í Sjálfstæðisflokknum. Þar slær hjartað. Þá loksins vaknar flokkurinn til lífsins. Komið að hugsjóninni sjálfri; koma brennivíninu út um allt og sem víðast,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon þingmaður Vinstri grænna.

Alls er óvíst hvort meirihluti er fyrir frumvarpinu á Alþingi þar sem margir þingmenn Framsóknarflokksins eru á móti því ásamt þingmönnum úr Samfylkingunni og Vinstri grænum. Hins vegar gæti verið stuðningur við frumvarpið hjá Bjartri framtíð og Pírötum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×