Innlent

Tefla bleikum fílum gegn kynferðisbrotum

BBI skrifar
Mynd/Facebook-síða hópsins.
Forvarnarhópur ÍBV mun beita sér af krafti á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum næstu helgi. Með bleika fíla í broddi fylkingar sendir hópurinn þau skilaboð að nauðganir og kynferðisbrot verði ekki liðin á þeirri hátíð.

Einkennismerki hópsins er bleikur fíll vegna þess að orðtakið „það er fíll í stofunni" er oft notað um stór vandamál sem virðist ekki vera hægt að leysa. Bleiki fíllinn táknar því aðgerðarleysi og vanmátt samfélagsins til að bregðast við nauðgunarbrotum. Og nú á að skáka honum út úr stofunni.

Haft er eftir Birki Thor Högnasyni, driffjöður í hópnum, að þó ofbeldið sé auðvitað á ábyrgð ofbeldismannanna er vandamálið samfélagslegt mein og það er undir okkur öllum komið að uppræta það með því að tala um það og gefa skýr skilaboð.

Fótboltalið ÍBV í bolum bleika fílsins.Mynd/Facebook-síða hópsins
Með slagorðum hópsins „Ég fíla samþykki" er undirstrikað að það er ekkert til sem heitir þögult samþykki við kynlífi.

Hugmyndin að forvarnarhóp ÍBV kviknaði þegar forsvarsmenn ÍBV mættu í druslugönguna svokölluðu sem haldin var í Reykjavík í júní. Nú mun hópurinn láta til sín taka á Þjóðhátíð, dreifa bolum, límmiðum og plakötum auk þess sem skilaboð munu birtast milli atriða á stóra sviði Þjóðhátíðar.

Starfi hópsins hefur verið vel tekið, fótboltaliðið tók sér frí frá æfingu til að stilla sér upp í bleikum bolum og fyrirtæki hafa heiti því að klæða allt starfslið sitt í þá á Þjóðhátíðardaginn.

Hér má sjá facebook síðu hópsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×