Erlent

Tannlæknir frá helvíti dæmdur í átta ára fangelsi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Myndin er sviðsett.
Myndin er sviðsett. Vísir/Getty
Hollenski tannlæknirinn Jacobus van Nierop hefur verið dæmdur í átta ára fangelsi í Frakklandi fyrir fjölmörg brot gegn viðskiptavinum sínum. Svo virðist sem að tannlæknirinn hafi leikið sér að því að meiða viðskiptavini sína.

Van Nierop var handtekinn á síðasta ári eftir að um 100 manns höfðu kvartað undan starfsháttum tannlæknisins. Við rannsókn málsins kom í ljós að Van Nierop hafði ekki leyfi til þess að stunda tannlækningar í Frakklandi. Virðist hafa verið góð ástæða fyrir því ef marka má vitnisburð fórnarlamba hans.

„Ég var í þrjá tíma í tannlæknastólnum hjá honum og það fossblæddi úr mér,“ sagði Sylviane Boulesteix, 66 ára gömul kona en Van Nierop dró úr henni átta tennur og setti í stað þeirra gervitennur sem pössuðu illa í góm hennar. Á meðan á aðgerðinni stóð flæddi blóðið úr Boulesteix en það virðist ekki hafa stöðvað Van Nierop í að skella sér í hádegismat á meðan viðskiptavinurinn mátti bíða í stólnum.

„Hann útskýrði aldrei fyrir mér hvað hann væri að gera. Hann er skrýmsli,“ sagði Boulesteix við fréttastofu AP um reynslu sína af viðskiptum við tannlækninn.

Dómstóll í bænum Neves í Frakklandi dæmdi tannlækninn í átta ára fangelsi fyrir 85 ákæruatriði sem sneru meðal annars að vísvitandi ofbeldi og fjársvikum. Brotin áttu sér stað á árunum 2009 til 2012.

Van Nieroop flúði til Kanada árið 2013 til þess að sleppa undan ákærum á hendur sér en var framseldur til Hollands og síðar Frakklands. Við vitnaleiðslur óskaði lögfræðingur eins af fórnarlömbum tannlæknisins eftir afsökunarbeiðni frá Van Nierop. Svar tannlæknisins var einfalt.

„Ég finn ekki fyrir neinu lengur. Ef ég myndi biðjast afsökunar væri ég bara að ljúga,“ svaraði Van Nierop sem hefur verið meinað að stunda tannlækningar til frambúðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×