Erlent

Táknrænn fundur á flugmóðurskipi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Leiðtogar Þýskalands, Ítalíu og Frakklands við gröf ítalska andspyrnumannsins Altieros Spinelli, sem var einn af upphafsmönnum Evrópusambandsins.
Leiðtogar Þýskalands, Ítalíu og Frakklands við gröf ítalska andspyrnumannsins Altieros Spinelli, sem var einn af upphafsmönnum Evrópusambandsins. Vísir/epa
Matteo Renzi, Françoise Hollande og Angela Merkel hittust á mánudagskvöldið á Ítalíu, þar sem þau boðuðu til blaðamannafundar um borð í flugmóðurskipi við eyjuna Ventotene, sem er rétt utan við borgina Napolí.

Þar sögðu þau væntanlegt brotthvarf Bretlands úr Evrópusambandinu alls ekki þurfa að marka upphafið að endalokum sambandsins. Þvert á móti eigi nú að stefna að nýju upphafi.

„Við virðum þá ákvörðun sem íbúar Bretlands tóku, en við viljum skrifa kafla framtíðarinnar,“ sagði Renzi. „Eftir brotthvarf Bretlands mun Evrópa hefja til vegs að nýju hinar öflugu hugsjónir samstöðu og friðar, frelsis og drauma.“

Á fundinum kom til tals að áformum um sameiginlegan her Evrópusambandsins megi hraða, enda hafi það ekki síst verið andstaða Breta sem stóð í veginum fyrir því að þau áform yrðu að veruleika.

Merkel Þýskalandskanslari lagði áherslu á að tryggja þurfi öryggi íbúa ESB-landanna auk þess sem baráttan gegn smyglurum með fólk yfir Miðjarðarhafið verði áfram erfið.

Ítalska flugmóðurskipið Guiseppe Garibaldi var ekki síst með hliðsjón af þessu valið til að halda þar blaðamannafundinn.

Efnislega þykir útkoma fundarins á mánudag heldur rýr, en hann var að nokkru haldinn til undirbúnings á óformlegum leiðtogafundi Evrópusambandsins sem haldinn verður í Bratislava 16. september næstkomandi. Þar stendur til að ræða nánar um brotthvarf Bretlands og framtíð Evrópusambandsins.

Staðarval fundarins á mánudag var táknrænt vegna þess að á eyjunni Ventotene var árið 1941 samin stefnuskrá um frjálsa og sameinaða Evrópu, nefnd Ventotene-stefnuskráin.

Höfundarnir voru Altiero Spinelli og Ernesto Rossi, sem voru fangar þar á eyjunni. Þau Merkel, Hollande og Renzi lögðu meðal annars leið sína að gröf Spinellis, sem er þar á eyjunni.

Ventotene-stefnuskráin náði útbreiðslu meðal ítölsku andspyrnuhreyfingarinnar og til hennar er upphaf Evrópusambandsins að nokkru rakið.

„Í dag sýndum við uppruna Evrópusambandsins sóma og með því að leggja blóm á gröf Altieros Spinelli sýndum við að við áttum okkur á því upp úr hverju þetta Evrópusamband er sprottið og að það varð til á myrkustu tímum Evrópu,“ sagði Merkel á blaðamannafundinum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×