Viðskipti innlent

Tæplega sjötug kona dæmd fyrir stórfelldan fjárdrátt

Kaupþing.
Kaupþing.
Anna V. Heiðdal var dæmd í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun en hún var sakfelld fyrir að draga sér 50 milljónir króna í starfi sínu hjá einkabankaþjónustu á eignastýringarsviði Kaupþings.

Anna millifærði söluandvirði verðbréfanna af bankareikningum kaupenda bréfanna inn á sinn eigin bankareikning í stað þess að ráðstafa því í þágu seljenda.

Hún vildi ekki tjá sig við fréttastofu í morgun þegar haft var samband við hana. Árið 2009 sagði hún í viðtali við Fréttablaðið: „Þetta mál er faktískt ekki til". Þá hélt hún staðfastlega fram sakleysi sínu.

Anna var sýknuð í Héraðsdómi Reykjavíkur á síðasta ári. Dómari taldi þá skýringar Önnu í samræmi við frásagnir eigenda þeirra félaga sem seldu bréfin, en þar var um að ræða félögin Yl-hús og Hraunbær 107.

Hæstiréttur ómerkti þennan dóm og sagði í niðurstöðunni að frásögn Önnu um lánveitingar til annars félagsins væri ekki studd neinum gögnum og á henni væri slíkur ólíkindablær að sennilegt mæti telja af niðurstaða héraðsdóms gæti verið röng.

Mál Önnu var það fyrsta sem rataði fyrir dómstóla eftir hrun, en brot hennar uppgötvuðust ekki fyrr en skilanefnd tók yfir Kaupþing. Brotin áttu sér þó stað nokkru fyrir hrun, eða á bilinu 2004 til 2008.

Refsingu Önnu er frestað í tvö ár og fellur niður að þeim tíma liðnum haldi hún almennt skilorð. Ástæðan fyrir að dómurinn er skilorðsbundinn er bæði vegna dráttar á málinu, en það hefur nú verið að velkjast innan dómskerfisins í fjögur ár. Einnig vegna aldurs Önnu, en hún er 69 ára gömul.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×