Lífið

Sýrlendingar á Íslandi óttast um vini og ættingja

Guðsteinn Bjarnason, Kristjana Björg Guðbrandsdóttir og Sveinn Arnarsson skrifa
"Það eina sem við biðjum um er friður,“ segir Khattab.
"Það eina sem við biðjum um er friður,“ segir Khattab. Visir/Auðunn
Khattab Almohammad fæddist árið 1968 í Aleppo og hafði búið þar alla sína tíð þegar borgarastríðið braust út. Hann býr nú með fjölskyldu sinni á Akureyri og var boðið hingað af íslenskum stjórnvöldum. 

Blaðamanni boðið í látlausa stofu með nokkuð mörgum ósamstæðum sófum. Sófum sem fjölskyldu Khattab­s hafa verið gefnir við komuna til landsins í janúar.

Í stofunni eru tveir synir þeirra hjóna, Ibrahim, níu ára, og Abull­atif, sjö ára. Sitja þeir við tölvuskjá í einu horninu og horfa á gamlan landsleik Sýrlands á YouTube. Þrátt fyrir aðeins um tíu mánaða veru á Íslandi var auðvelt að ræða við þá á íslensku. Ibrahim tjáði mér að það væri gaman í Brekkuskóla og að hann væri í fótbolta í KA og það gengi bara vel.

Þegar talið barst að ástandinu í borginni var hann fljótur að ná í myndir af Aleppo fyrir stríð. Um fimm milljónir manna bjuggu í borginni á friðartímum.

„Borgin var falleg og ég mun alltaf hugsa til hennar sem heimaslóðar minnar, hvar svo sem ég er. En það er leiðinlegt að sjá hvernig bandamenn Assads forseta fara með borgina. Þetta stríð er háð í einum tilgangi, sem er sá að halda Assad við völd. Á meðan beitir hann loftárásum á eigin þjóð,“ segir Khattab­ og vandar Assad forseta ekki kveðjurnar.

Flótti til Líbanons

Khattab fór á flótta þremur mánuðum á undan fjölskyldu sinni. Hann taldi sig ekki óhultan í borginni þar sem hann hafði einhverju sinni mótmælt stjórn Assads. „Við höfðum séð lögreglu Assads taka einstaklinga sem voru mótfallnir sitjandi stjórnvöldum og ef minnsti grunur lék á því varstu tekinn af lífi. Mýmörg dæmi eru um þess konar aftökur í Aleppo. Því fór ég þremur mánuðum á undan fjölskylduu minni og flúði til Líbanons.“

Hann segir það hafa tekið um tvo daga að komast leiðar sinnar til Líbanons sem venjulega tók um fjórar klukkustundir. „Ég þurfti að greiða mönnum til að komast yfir landamærin,“ bætir Khattab við. „Ég gat ekki vitað í hvaða liði landamæraverðirnir voru svo ég fann mann inni í stjórnkerfinu sem gat aðstoðað mig við að komast yfir landamærin.“

Hann segir Aleppo rjúkandi rúst í dag og hann geti ekki á nokkurn hátt haft samband við ættmenni, vini og nágranna sem lifa enn í borginni. „Þetta folk er í lífshættu á hverri sekúndu,“ segir Khattab og bætir við að níu manns hafi látið lífið í götunni hans í árás stjórnarhers Assads.

„Myndir og stopular fréttir segja mér að níu hafi fallið í árás í götunni minni og það er ógerningur fyrir okkur að vita hvaða einstaklingar létust. Það er langt þar til ég mun vita hvaða vinir, ættingjar eða nágrannar féllu þar.“

Mótmælir á Akureyri

Khattab og fjölskylda hans hafa síðustu helgar mætt á Ráðhústorgið á Akureyri og mótmælt stríðinu í Sýrlandi. Um síðustu helgi mættu tæplega 80 aðrir Akureyringar til þess að sýna þeim samstöðu á erfiðum tímum. „Það var mjög fallegt að sjá svona marga. Við viljum mæta þegar við getum um helgar til að sýna að við erum á móti stríðinu. Það eina sem við biðjum um er friður.“

Nýtt líf

Khattab segir ákvörðunina um að flytja til Akureyrar ekki hafa verið hans. „ Við vorum valin hingað og erum þakklát fyrir það sem hefur verið gert fyrir okkur. Börnin okkar lifa nú við frið sem þau hafa ekki gert síðustu fimm árin,“ segir Khattab.­ „Ég hafði ekki hugmynd um hvar Ísland var á landakorti þegar ég heyrði það fyrst. “

Menningarheimur Sýrlendinga er um margt frábrugðinn þeim sem við eigum að venjast hér heima. Hins vegar slær Khattab á þær vangaveltur um leið.

„Þegar ég ólst upp og í gegnum trú mína sem múslimi er mér og okkur öllum kennt að vera góður við nágrannann, hjálpa þeim sem hjálp þurfa, sýna samstöðu á erfiðum tímum, vera góður, hreinskilinn og standa við gefin loforð. Hér á landi hef ég kynnst þeim eiginleikum og því líður okkur þannig séð vel hérna. Góðvildin er mikil á Íslandi,“ segir Khattab.

Því má bæta við að þegar blaðamaður mætti á heimili þeirra hjóna voru tveir Vottar Jehóva að ganga úr húsi. „Þetta var indælisfólk,“ sagði Khattab um innlit þeirra. „Við eigum fullt sameiginlegt. Í Aleppo var moska og kirkja hlið við hlið í mörg hundruð ár og allir lifðu þar í sátt og samlyndi.“

Yaman Brikhan fylgist stöðugt með fréttum og það tekur á. Hann á stóra fjölskyldu í Aleppo sem hann óttast um.vísir/eyþór
Fjölskyldan föst í martröð

Vinir og ættingjar eru að deyja í Aleppo og Sýrlandi og það er ekkert sem ég get gert,“ segir Yaman Brihhan, eigandi skyndibitastaðarins Alibaba.

„Ég er Íslendingur jafnt og Sýrlendingur. Ég hef búið hér í um fimmtán ár. Ég bið fólk oft um að ímynda sér að við Íslendingar þyrftum að búa við þessa martröð? Hvað myndum við segja við alþjóðasamfélagið? Hvers myndum við krefjast?“ spyr Yaman. Hann er þreyttur og dapur. Hann fylgist stöðugt með fréttum frá ættlandinu og það tekur á.

Yaman er fæddur og uppalinn í Aleppo. Hann ákvað að flytjast til Íslands um aldamótin „Þrátt fyrir það að Aleppo sé gríðarfalleg borg og rík af menningu, þá hafði spillingin grafið um sig í borginni og ég var svartsýnn á framtíð mína þar.

Í Aleppo vann ég við fjölskyldufyrirtækið, verslun með textíl og tískuvöru. Ég elskaði matargerð og vildi reyna fyrir mér í henni.“

Sendir peninga til Aleppo

Nú rekur Yaman tvo veitingastaði í Reykjavík, í Veltusundi í miðbænum og í Spönginni í Grafarvogi. Hann aðstoðar tugi manns í Aleppo við að komast af í hörmungunum. „Ég gef þeim peninga. Það er það sem gefst best í þessum aðstæðum. Ég og nokkrir fleiri aðstoðum tuttugu fjölskyldur í borginni. Ég geri allt sem er í mínu valdi til að aðstoða.

Vanmátturinn er mikill. Þegar fólk spyr hvað það geti gert til að hjálpa, hvort það megi ekki rétta hjálparhönd, þá bið ég það að reyna að stöðva stríðið. Fólk hefur góðan vilja en nú er bara nóg komið af góðum hug og vilja. Það þarf að stöðva stríðið. Þannig að ef þið viljið hjálpa, gerið þá allt sem er í ykkar valdi til að stöðva stríðið,“ segir Yaman.

Systirin orðin ekkja

Yaman aðstoðar marga Sýrlendinga sem koma hingað til lands við að laga sig að íslensku samfélagi. Hann talar við þá og gefur þeim ráð. Á sama tíma finnst honum erfitt að geta ekki tryggt öryggi ættingja sinna í Aleppo því þar á hann stóra fjölskyldu.

Þar búa foreldrar hans, tvær systur og bróðir með fjölskyldur sínar. „Systir mín missti eiginmann sinn fyrir stuttu. Hann skrapp að sækja eitthvað í geymsluna þegar gerð var sprengjuárás og kom aldrei aftur,“ segir Yaman.

Systir Yaman á fjögur börn. „Yngsta barnið er þriggja mánaða og þau elstu, tvíburar, ellefu ára gamlir,“ segir hann frá. Hann hefur hugsað um möguleikann á því að reyna að ná systur sinni til Íslands. „Ég hugsaði einu sinni um það hvort ég ætti að reyna að fá hana hingað til lands en það er virkilega flókið og erfitt. Fólk heldur að það sé ekkert mál en yfirvöld sem stýra útlendingamálum í Evrópu vinna gegn því að fólk fari. Ég vil ekki að hún fari hættulega sjóleið með börnin. Þau eru föst í þessari martröð,“ segir hann. „Og svo vill fólk ekkert endilega koma til Íslands, það vill bara að stríðinu ljúki og alþjóðasamfélagið geri eitthvað,“ segir hann.

Fólk fast í dauðagildru

Yaman hefur ekki farið til Aleppo frá árinu 2011. Fyrir stríðið heimsótti hann ættingja sína reglulega. Hann átti þó fund með foreldrum sínum í Beirút í Líbanon í haust þegar vopnahléið stóð yfir.

„Ég er búinn að vera að reyna að hjálpa þeim að komast í heimsókn til mín til Íslands. Þau fá ekki áritun,“ segir hann og sýnir blaðamanni höfnun þarlendra yfirvalda á ferðaleyfi fyrir foreldra hans. „Þau fá hreinlega ekki að fara. Og svona er líf þessa fólks þótt mörgum sé talin trú um annað. Fólk er fast í dauðagildru,“ segir hann.

„Það eru settar reglur og takmarkanir um fólk sem ég og þú eða hvaða Íslendingur sem er myndi aldrei sætta sig við.“

Vonlítill

Yaman segist stundum vonlítill um að umræða um hörmungarnar í Aleppo leiði eitthvað gott af sér. „Í dag líður mér þannig. Eins og það sem ég segi og verður prentað, fari beint í ruslið.

Fólk les þetta, kemst í smá uppnám, lætur ef til vill eitthvað gott af sér leiða. En svo breytir það engu. Það sem þarf að gera er að stöðva stríðið.“

Hann spyr hvort hann megi reykja. Nær sér í sígarettu og öskubakka og kveikir í. Virðist nota tímann til að lægja reiðina áður en hann tekur aftur til máls. „Hættið að hugsa. Farið að gera. Gerið allt sem þið getið til að stöðva dráp á börnum,“ segir hann. 

„Þótt stríðið sé núna búið að fylgja mér í fimm ár í vinnu minni þá trúi ég stundum ekki enn þá að þetta hafi í alvörunni farið svona þar. Að það sé í alvörunni búið að sprengja í sundur þetta heillandi land þar sem ég var tveimur árum fyrir stríðið. Sýrland var magnaður staður,“ segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá UNICEF.

„Ég trúi því varla að Aleppo með sín ómetanlegu menningarverðmæti sé brunarúst í dag. Að nánast á einu andartaki hafi lífið farið á hvolf hjá hressu krökkunum sem ég hitti og þau hafi óvænt endað á flótta eða verið drepin eða misst fjölskyldumeðlimi og séð hluti sem ekkert barn ætti að sjá,“ segir hún.

„Ég verð stundum óendanlega sorgmædd yfir stöðunni í Sýrlandi, grimmdinni og þjáningunni. Ég hef sérstaklega komist við út af myndum af börnum sem eru á svipuðum aldri og litli strákurinn minn, tveggja ára, og föst í martröð sem heldur stöðugt áfram og verður bara myrkari og myrkari,“ segir Sigríður og bætir við að á sama tíma sé hún þakklát fyrir þau samtök sem hún vinnur fyrir.

Nú hafa samtökin áhyggjur af vetrinum. „Hitastigið í Sýrlandi fer brátt lækkandi og veturinn skellur á. Líkt og seinustu vetur skipuleggur UNICEF nú gríðarlega umfangsmiklar aðgerðir til að bregðast við kuldanum.“

Styðja má neyðarsöfnunina með því að senda sms-ið STOPP í nr 1900 (1.900 kr).

„Neyðaraðgerðir UNICEF vegna stríðsins í Sýrlandi eru þær stærstu sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur nokkru sinni ráðist í,“ segir Sigríður.

Enginn öruggur staður

Kieran Dwyer, upplýsingafulltrúi UNICEF í Sýrlandi segir aðspurð um stöðuna í dag að fólk í austurhluta Aleppo hafi engan öruggan stað til að fara á. „Það er engin leið fyrir það til þess að vernda börnin sín þegar sprengjum er varpað á þétta íbúðabyggð. Börnin vita aldrei hvar næsta sprengja fellur og það hefur gríðarleg sálræn áhrif á þau.

Við verðum að muna að börn eru alls staðar eins. Þau eiga öll sínar vonir. Við vitum það hér, sem vinnum á hverjum degi með börnunum sem lifa af þessar skelfilegar árásir, að þau eru ekki að bíða eftir því að deyja. Þau eiga sér vonir um hvað þau vilja gera í framtíðinni. Okkar verkefni er að berjast fyrir réttindum þeirra og þar skiptir hvert framlag máli,“ segir Kieran.


Tengdar fréttir

Deyjandi börn látin liggja á gólfinu

Meira en hundrað börn hafa dáið í loftárárásum á borgina Aleppo í Sýrlandi á einni viku. Í viðtali við Stöð 2 biðlar starfsmaður UNICEF í Sýrlandi til Íslendinga um að loka ekki augunum fyrir hörmungum sýrlenskra barna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×