Innlent

Sýknaður af ákæru um nauðgun: Segist hafa fengið já við spurningunni: „Er ég næstur?“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Myndin er sviðsett.
Myndin er sviðsett. Vísir/Getty
Karlmaður hefur verið sýknaður í Héraðsdómi Norðurlands vestra af ásökunum um að hafa nauðgað stúlku sumarið 2012. Var hann sakaður um að hafa með ofbeldi þröngvað stúlkunni til samræðis og annarra kynferðismaka. Átti hann að hafa rifið í hár hennar, slegið ítrekað með flötum lófa í andlit og rass, haft við hana samfarir og neytt til munnmaka.

Dómurinn taldi engin hlutræn sönnunargögn renna stoðum undir að maðurinn hefði nauðgað stúlkunni. Frásagnir vitna á þá leið að stúlkan hafi verið hágrátandi og miður sín eftir að hún kom frá ákærða gætu ekki einar og sér leitt til sakfellingar.

Við mat á trúverðugleika framburðar stúlkunnar „verður þó ekki framhjá því litið að miðað við það harðræði sem stúlkan segir ákærða hafa beitt sig hefði hún átt að bera þess einhver merki“ segir í dómnum. Dómnum var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.

Spurði í gríni: „Er ég næstur?“

Lögreglumenn voru kallaðir að heimili ákærða að morgni laugardagsins 9. júní 2012. Þá hafði stúlkan greint frá því að sér hefði verið nauðgað af manninum. Fullyrti hún að maðurinn hefði margsinnis lamið hana og því ætti að vera blóð að finna í rúmi hans. Var maðurinn handtekinn og færður til skýrslutöku.

Maðurinn lýsti því að hann hefði verið að skemmta sér um kvöldið, farið á skemmtistað en síðar heim. Frændi hans, sem bjó með honum, hafi þegar verið kominn heim og greinilega verið með stúlku inni á herbergi hjá sér. Ákærði hafi „eitthvað ruglað í honum“ en svo eldað sér núðlur og sest við tölvuna. Eftir að hafa spjallað við vinkonu sína í síma ætlaði hann að fara að sofa þegar hann sá stúlku standandi í forstofunni. Hann kannaðist við hana en þekkti ekki.

„Er ég næstur?“ segist maðurinn hafa spurt stúlkuna í gríni og spurningunni hafi hún svarað játandi. Þau hafi í kjölfarið farið í svefnherbergið. Hún hafi ekki getað komið smokk á hann, hann orðið þreyttur og lagst útaf. Hún hafi í kjölfarið haft við hann munnmök. Voru samfarir þeirra ekki harkalegar að hans mati. Hann hafi vissulega slegið stúlkuna í rassinn en með hennar samþykki. Hann neitaði að hafa slegið stúlkuna í andlitið en kvaðst hafa togað aðeins í hár hennar.

Að samförum loknum hafi þau klætt sig og hann beðið stúlkuna um að segja ekki frá þar sem bærinn væri lítill. Auk þess væri hún nýbúin að sofa hjá frænda hans. Þau hafi svo kvaðst og stúlkan farið í góðu ástandi að hans mati. Hann hafi svo hringt í vinkonu sína, þá sömu og hann ræddi við fyrr um nóttina, og montað sig af því að hafa sofið hjá stúlkunni. Skömmu síðar hafi hann fengið símtal frá vini sínum sem hafi spurt sig hvort hann hafi nauðgað stúlkunni. Hann hafi neitað því. Hann hafi sömuleiðis neitað að hafa sofið hjá stúlkunni af þeirri ástæðu að vinur hans væri fljótur að dreifa út kjaftasögur.

Maðurinn viðurkenndi við skýrslutökur að hafa slegið stúlkuna utanundir. Aðspurður um mun á framburði sínum í skýrslutöku og fyrir dómi sagði maðurinn að hann myndi ekki eftir því. Líklega hefði hann þó munað atburðinn betur þá og taldi framburð sinn í skýrslunni réttan.

Slegin ógeðslega fast

Konan bar fyrir dómi að hún hafi hitt frænda ákærða í samkvæmi með vinkonum sínum. Hún hafi ekki þekkt hann en vissi hver hann var. Hafi þau farið heim til hans og stundað kynlíf. Eftir samfarir hafi hún verið búin að klæða sig í skóna og á útleið þegar ákærði hafi boðið henni vatn sem hún hafi þegið. Þau hafi gengið inn en þar hafi maðurinn gripið í handlegg hennar, farið með hana inn í herbergi og hrint henni á rúm.

Maðurinn hafi haldið henni á rúminu, hún legið á maganum allan tímann með hendur undir sér en ákærði hafi þrýst ofan á hana svo hún gat ekki losað hendur sínar. Hann hafi haft við hana samræði og slegið endurtekið „ógeðslega fast“ í andlitið og á rass. Hann hafi svo neitt hana til munnmaka. Að þessu loknu hafi hann bannað henni að segja nokkrum frá þessu og rétt henni „smokkabréf“ og sagt henni að losa sig við það. Þá hafi hún hlaupið út og farið aftur í samkvæmið þar sem hún hafði verið áður en hún fór heim með frænda ákærða. Þar hafi hún brotnað niður.

Stúlkan minntist þess ekki hvort ákærði hefði notað smokkinn en taldi það þó víst fyrst hann hefði rétt henni rifið bréfið. Hvernig honum tókst að setja smokkinn á sig í öllum hamagangnum vissi hún þó ekki. Í samkvæminu hafi vinkona hennar rætt við sig og annar gestur í kjölfarið hringt í lögregluna.

Stúlkan sagði líðan sína eftir atvikið ekki hafa verið góða. Hún hafi verið með mikla verki í hálsi, höfði og rassi og átt erfitt með að snúa höfði. Hún hafi farið til sálfræðings og fengið lyf til að geta sofið. Hún hafi haldið áfram að hitta vini sína næstu daga en alltaf brotnað niður á kvöldin. Þá taldi hún að hún hefði fengið einkenni þunglyndis.

Þá sagðist hún hafa fengið nafnlausa símhringingu þar sem henni var sagt að láta málið niðurfalla. Eftir að lögreglan hafi rætt við ákærða hafi hún ekkert heyrt frá ákærða. Hún neitaði svo staðfastlega að hafa samþykkt að hafa samfarir við ákærða. Taldi hún hann ekki hafa neina ástæða til að ætla að svo væri. Hún hafi reynt að berjast á móti og því hafi honum átt að vera ljóst að samfarirnar hafi verið gegn hennar vilja. Þá sagðist hún ekki hafa verið undir miklum áhrifum áfengis þótt hún hafi fundið til áfengisáhrifa.

Læknir á bráðamóttöku Sjúkahússins á Akureyri, sem tók á móti stúlkunni um morguninn, sagði frásögn hennar hafa verið skýra. Hún hefði verið aum í hvirfli án þess að þar væri sjáanlegur áverki.Vísir/Getty
Stúlkan skemmti sér helgina á eftir

Frændi ákærða sagðist ekki hafa þekkt stúlkuna fyrir kvöldið. Þau hafi farið saman úr samkvæminu og stundað kynlíf. Hann hafi orðið var við að ákærði væri kominn heim en ekki orðið var við neitt frekar um kvöldið og sofnað. Hann taldi að hann hefði heyrt ef eitthvað hefði gengið á enda hljóðbært og stutt á milli herbergja.

Vitni sem höfðu þekkt stúlkuna sögðu hana hafa komið hágrátandi. Önnur hafi talið hana aðeins bólgna á kinnbeini og rauða í kinnum. Aðra áverka hafi ekki verið að sjá. Þótti annarri vinkonunni skrýtið að stúlkan fór að skemmta sér strax næstu helgi á eftir. Það hafi orðið til þess að henni þótti ólíklegt að ásakanir hennar væru réttar. Hitt vitnið sagðist hafa velt fyrir sér um nóttina hvers vegna ekki var fleiri áverka að sjá á stúlkunni miðað við lýsingar hennar.

Maðurinn sem hringdi í ákærða um nóttina hafði verið góður vinur ákærða fyrir mörgum árum. Hann segir ákærða hafa svarað í símann aðspurður hvort hann hefði nauðgað stúlkunni: „Myndir þú trúa mér til þess?“ Þá sagði hann að frásögn stúlkunnar hefði ekki verið sannfærandi að eigin mati. Hann þekkti ákærða ágætlega og vissi að ef ákærði ætlaði sér að meiða einhvern þá myndi það sjást. Hann lýsti því að stúlkan hefði verið frekar róleg þegar hún kom í samkvæmið þó hún hafi verið grátandi. Hún hafi orðið heldur æstari eftir að vinkonur hennar voru búnar að tala við hana.

Eitt vitni sagði að stúlkan hefði lýst atvikinu fyrir sér á þann veg að það hefði gerst á öðrum stað. Í framhaldi hafi lýsingar stúlkunnar af atburðarásinni breyst, einkum hvað varðaði smáatriði. Honum hafi svo sýnst málið búið í huga stúlkunnar þar sem hún hafi farið út að skemmta sér helgina á eftir.

Þá staðfesti vinkona ákærða, sem fékk tvær símhringingar frá honum um nóttina, frásögn hans. Nokkrum dögum síðar hafi hann hringt aftur í sig og sagt henni frá því að stúlkan hefði kært hann. Vinkonan segir að sér hafi orðið mjög brugðið við þetta enda hafi hún ekki trúað því upp á ákærða.

Aum í hvirfli en engir áverkar

Lögreglumenn á vettvangi sögðu að ekkert sérstakt hefði vakið athygli þeirra í húsinu. Eitthvað af hárum hefði fundist í rúminu sem gætu hafa verið af brotaþola. Þá hafi fundist notaður smokkur á baðherbergi.

Læknir á bráðamóttöku Sjúkahússins á Akureyri, sem tók á móti stúlkunni um morguninn, sagði frásögn hennar hafa verið skýra. Hún hefði verið aum í hvirfli án þess að þar væri sjáanlegur áverki. Aðra áverka hefði ekki verið að sjá en stúlkan hefði þó lýst því að hún væri aum í koki og á hálsi.

Félagsráðgjafi kvaðst hafa hitt stúlkuna nokkrum sinnum. Hún hefði þó ekki sérfræðiþekkingu á kynferðisbrotamálum. Hann hafi ráðlagt stúlkunni að leita til sáfræðings eða lækna teldi hún þess þörf. Að sögn hennar bar hún ákveðin einkenni þeirra sem verða fyrir kynferðisbroti. Þá hefði stúlkan farið úr bænum í nokkurn tíma vegna málsins og þau aðeins hist einu sinni síðan hún kom til baka. Ástæðuna fyrir fjarverunni sagði stúlkan vera þá að hún væri baktöluð, mikið horft á hana auk þess sem enginn tryði henni.

Dómnum ekki áfrýjað til Hæstaréttar

Í dómi héraðsdóms kemur fram að ákærði og stúlkan séu ein til frásagnar um það sem gerðist í umrætt sinn. Að mati dómsins hafi ekkert komið fram í framburði ákærða sem sé til þess fallið að draga úr trúverðugleika dómsins. Stúlkan hafi verið staðföst í framburði sínum líkt og maðurinn. Við mat á trúverðugleika framburðar stúlkunnar „verður þó ekki framhjá því litið að miðað við það harðræði sem stúlkan segir ákærða hafa beitt sig hefði hún átt að bera þess einhver merki.“

Þá kemur fram að lítið mark sé hægt að taka á vottorði sérfræðingsins sem stúlkan hitti þar sem ekki sé um sérfræðing í meðferð þolenda kynferðisbrota að ræða. Að öllu framansögðu renna engin hlutræn sönnunargögnstoðum undir að ákærði hafi nauðgað stúlkunni að því er segir í dómnum. Þá geta frásagnir vitna á þá leið að brotaþoli hafi verið hágrátandi og miður sín er hún kom frá ákærða ekki einar og sér leitt til þess að sakfella beri ákærða. Allur sakarkostnaður féll á ríkissjóð.

Dómurinn féll þann 16. desember 2013 en var ekki birtur á vef héraðsdóms fyrr en nokkru síðar. Af þeim sökum hefur ekki verið greint frá niðurstöðunum fyrr en nú.

Ákæruvaldið áfrýjaði ekki dómnum til Hæstaréttar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×