Innlent

Sýknaðar af bótakröfu Geira á Goldfinger

sev skrifar
Elín Arnar, ristjóri Vikunnar.
Elín Arnar, ristjóri Vikunnar.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Björk Eiðsdóttur og Elínu Arnar, blaðamann og ritstjóra Vikunnar, af skaðabótakröfu Ásgeirs Þórs Davíðssonar, betur þekkts sem Geira á Goldfinger, vegna umfjöllunar blaðsins um nektardans.

Upprunarlega stefndi Ásgeir bæði þeim Björk og Elínu auk viðmælanda þeirra, Lovísu Sigmundsdóttur, fyrrverandi nektardansmeyjar, vegna meintra ærumeiðandi ummæla. Hann krafðist fimm milljóna í skaðabætur auk greiðslu málskostnaðar og 800 þúsund króna til að kosta birtingu dóms í málinu í þremur dagblöðum.

Í viðtalinu í Vikunni lýsti Lovísa reynslu sinni af nektardansi, þar á meðal á Goldfinger. Hún sagði að þar væri stundað vændi með fullri vitund Ásgeirs og að mikill þrýstingur væri á dansstúlkurnar að stunda slíkt.

Ásgeir féll þó frá kærunni á hendur Lovísu á þeim forsendum að ekki hefði verið rétt haft eftir henni.

Fram kemur í niðurstöðu dómsins að Lovísa beri ábyrgð á ummælum sínum í viðtalinu en hins vegar hafi verið fallið frá kröfugerð á hendur henni. Af þessu leiði að blaðamaðurinn beri ekki ábyrgð sem „höfundur greinarinnar" og er ekki fallist á kröfugerð Ásgeirs um að tiltekin ummæli verði dæmd dauð og ómerk.

Þá taldist blaðamamaðurinn hafa sett millifyrirsagnir fram á eðiliegan hátt án þess að fara út fyrir mörk tjáningarfrelsis. Enn fremur taldist Elín Arnar ekki hafa farið út fyrir mörk tjáningarfrelsisins með framsetningu efnisins á forsíðu og í efnisyfirliti.

Komst dómurinn því að því að ekki væru skilyrði fyrir miskabótakröfu í málinu. Ekki hefði verið sýnt fram á að við framsetningu og kynningu á viðtalinu í Vikunni hefðu verið hafðar í frammi ærumeiðingar og aðdróttanir í garð Ásgeirs. Ber Ásgeiri að greiða konunum 600 þúsund krónur í málskostnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×