Erlent

Svíar reisa mögulega tjaldbúðir fyrir hælisleitendur

Atli Ísleifsson skrifar
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. Vísir/AFP
Sænska ríkisstjórnin hefur veitt heimild fyrir því að tjaldbúðir verði reistar fyrir hælisleitendur í landinu. Þetta er gert vegna skorts á öðru húshæði.

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, greindi frá þessu á fréttamannafundi í morgun þar sem hann sagði landið standa frammi fyrir neyðarástandi.

Löfven benti á að síðustu daga hafi 8.899 hælisleitendur komið til Svíþjóðar og að þeir kunni alls að verða 150 þúsund á árinu.

Í frétt SVT kemur fram að ríkisstjórnin hafi áður beint þeim orðum til sveitarstjórna og einkaaðila að bjóða fram húsnæði þar sem mögulegt sé að hýsa hælisleitendur.

Á fréttamannafundinum sögðu ráðherrar ríkisstjórnarinnar að heimild hafi verið gefin til að koma upp tjaldbúðum fyrir hælisleitendur.

„Þetta er lokaúrræði. En við verðum að vera reiðubúin, þannig að hægt sé að panta tjöld en svo erum við með nokkur á lager,“ sagði Morgan Johansson, ráðherra innflytjendamála. Hann leggur þó áherslu á að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða á meðan hælisleitendur bíða eftir húsnæði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×