Innlent

Sunna segir Sigmund Davíð aldrei hafa spurt út í efni viðtalsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sunna Valgerðardóttir er verðlaunaður blaðamaður.
Sunna Valgerðardóttir er verðlaunaður blaðamaður.
Sunna Valgerðardóttir, fréttakona RÚV á Akureyri, segir Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þingmann Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, aldrei hafa spurt hvert efni viðtalsins væri sem hann veitti RÚV á 100 ára afmælishátíð flokksins norðan heiða.

Segja má að upp úr hafi soðið þegar Sunna hætti að spyrja þingmanninn út í afmæli flokksins og sneri sér að mætingu þingmannsins á Alþingi fyrstu daga nýs þings.

Mætti í afmælið upp á von og óvon

„Ég hafði óskað eftir viðtali við hann í tilefni dagsins með SMS-skilaboðum, en engin svör fengið. Við ákváðum því að fara á staðinn og kanna hvort hann myndi veita viðtalið,“ segir Sunna á Facebook. Sunna fór því á afmælisfögnuð flokksins á Akureyri síðastliðinn föstudag upp á von og óvon.

„Sigmundur Davíð tók mér vel og bað mig að bíða andartak, áður en við tókum viðtalið. Hann spurði mig aldrei um efni þess fyrirfram, eins og stjórnmálamenn gera þó gjarnan.“

Í viðtalinu, sem birt var í heild á vef RÚV, kom fram að Sigmundur Davíð taldi sig hafa veitt viðtalið á ákveðnum forsendum. Sunna þvertekur fyrir það.

Gekk úr viðtalinu

Á árum áður var það því sem næst regla að ráðherrar fengju að vita efni viðtala áður en þeir veittu þau. Sömuleiðis þekkist það enn að ráðherrar og þingmenn neiti að veita viðtöl nema fyrir liggi hvert umræðuefnið er.

Sem fyrr segir brást Sigmundur illa við spurningum sem sneru að því af hverju hann hefði ekki mætt í vinnuna. Lauk viðtalinu með því að hann gekk úr viðtalinu áður en því var lokið.


Tengdar fréttir

Sakar fréttamann RÚV um dónaskap

Segir tilgang heimsóknar á afmæli Framsóknarflokksins virðast eingöngu hafa verið til þess að ýta undir illdeilur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×