Innlent

Sundabraut hentug einkaframkvæmd

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Vegagerðinni líst vel á að setja hluta vegaframkvæmda í einkaframkvæmd. Sundabraut er nefnd sem dæmi um verkefni sem gæti hentað til slíks. Lífeyrissjóðir gætu komið að fjármögnun verksins verði ávöxtun tryggð.

„Miðað við þær forsendur sem ráðherrann leggur upp með líst okkur vel á að setja hluta vegaframkvæmda í einkaframkvæmd,“ segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sagði við Fréttablaðið í gær að hún vildi auka samstarf hins opinbera við einkaaðila í vegaframkvæmdum.

Hreinn segir að Vegagerðin sé nú að skoða þá kosti sem í boði eru. Hann tekur sem dæmi að Sundabraut í Reykjavík, Svínvetningabraut í Húnavatnssýslu og vegur um Öxi séu vegaframkvæmdir sem hægt væri að setja í einkaframkvæmd. Þær uppfylli þau skilyrði sem innanríkisráðherra setur en það er að slíkar framkvæmdir komi ekki til álita nema vegfarendur hafi kost á annarri leið samhliða einkaframkvæmdinni.

Svínvetningabraut myndi liggja fyrir sunnan Blönduós og stytta hringveginn um 12 til 15 kílómetra eftir því hvaða vegstæði yrði valið. Vegfarendur hefðu val um hvort þeir færu um Blönduós eða færu Svínvetningaleið.

Vegurinn um Öxi gæti legið frá Háubrekku í Berufjarðardal að Reiðeyri í Berufirði og myndi stytta leiðina milli suðurhluta Austfjarða og Egilsstaða um 60 kílómetra. Fólk gæti valið um hvort það færi firðina eða um Öxi.

Sundabraut gæti stytt norðurleiðina um níu til tíu kílómetra. Þar hefðu menn val um hvort þeir færu um Ártúnsbrekku og Vesturlandsveg eða hina nýju Sundabraut.

Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi segir sér lítast vel á að fara í framkvæmdir við Sundabraut. „Mér líst vel á að fólk hafi val um það hvort það greiðir beint fyrir að nota samgöngumannvirki eða ekki. Sundabraut getur verið góður kostur hvað þetta varðar.“

Júlíus Vífill segir það skoðun langflestra að Sundabraut sé arðbær framkvæmd en menn verði að hafa í huga að stilla gjaldtöku í hóf. Síðustu spár um umferð um Sundabraut, sem eru raunar nokkurra ára gamlar, gera ráð fyrir að 20 til 30 þúsund bílar færu um brautina daglega.

Spurningar vakna um hvaða einkaaðilar gætu verið tilbúnir að taka að sér að fjármagna vegaframkvæmdir. Lífeyrissjóðirnir komu til að mynda að fjármögnun Hvalfjarðarganga.

Þórey Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir að uppfylli fjárfesting það að vera til hagsbóta fyrir sjóðfélagana séu sjóðirnir tilbúnir að taka þátt, annars ekki. Menn vegi saman áhættu og ávöxtun í hverri fjárfestingu og taki ákvörðun út frá því. Það gildi jafnt um fjárfestingu í vegaframkvæmdum sem öðrum framkvæmdum.

Hvalfjarðargöng voru einkaframkvæmd

Hvalfjarðargöng eru eina stóra einkaframkvæmdin í vegamálum á Íslandi. Hlutafélagið Spölur var stofnað um gangagerðina. Árið 2011 var stærsti einstaki hluthafinn í Speli Faxaflóahafnir. Aðrir stórir hluthafar voru Ríkissjóður Íslands, Elkem á Íslandi, Hvalfjarðarsveit og Vegagerðin.

Bandaríska líftryggingarfélagið John Hancock, Mutual Life Insurance inc., tók að sér stærstan hluta langtímafjármögnunar gangagerðarinnar. Þá komu að fjármögnun verksins íslenskar lánastofnanir, einkum lífeyrissjóðir. Landsbréf hf. sáu um skuldabréfasölu til fimmtán íslenskra lífeyrissjóða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×