Skoðun

Stuðningur við íslenska hönnun

Haukur Már Hauksson skrifar
Hönnun er ekki aðeins mikilvægur þáttur í menningu þjóðarinnar; hún er ekki síður mikilvægur þáttur í atvinnulífi hennar. Samkvæmt niðurstöðu hagrænnar rannsóknar á stöðu skapandi greina, sem kynnt var 1. desember 2010, starfa um 10.000 manns innan þessara greina og skapa virðisaukaskattskylda veltu sem nemur að lágmarki 198 milljörðum. Samkvæmt sömu rannsókn nema útflutningstekjur þjóðarinnar af skapandi greinum yfir 24 milljörðum króna.

Hönnun hefur um langa hríð átt undir högg að sækja þegar kemur að stuðningi hins opinbera. Helgast það annars vegar af því að hönnun er afskaplega víðfeðmt hugtak, þar sem hönnuðir vinna sjálfstætt að mjög fjölbreyttum verkefnum, hins vegar af því að stjórnvöld hafa tilhneigingu til að styðja það sem þekkt er og hefur verið gert áður. Því hefur stuðningur við skapandi greinar aðallega snúið að bókmenntum, leiklist, kvikmyndagerð og tónlist. Hönnuðir hafa einnig verið svo uppteknir af sköpun sinni að þeir hafa ekki náð að bindast sterkum samtökum til að berjast fyrir hagsmunum sínum.

Hagsmunum hönnuða og hönnunar hafði því ekki verið haldið mjög á lofti þegar Hönnunarmiðstöð Íslands var stofnuð árið 2008. Að Hönnunarmiðstöðinni standa níu fagfélög hönnuða og arkitekta og er hún að hluta til rekin með stuðningi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Aukinn áhugi

Frá stofnun Hönnunarmiðstöðvar Íslands hefur vegur hönnunar vaxið mikið og áhugi almennings á hinni fjölbreyttu flóru íslenskrar hönnunar aukist til muna. Sá aukni áhugi sést kannski best á því að samkvæmt könnun Capacent að loknum HönnunarMars 2012 tóku um 30.000 manns þátt í hátíðinni og um 85% landsmanna þekktu til hennar.

Ýmislegt í umhverfi hönnuða hefur breyst til batnaðar frá stofnun miðstöðvarinnar. Má þar t.d. nefna að undir starfslaunum listamanna er nú sérstakur sjóður starfslauna hönnuða. Sá sjóður er langminnsti sjóðurinn, veitir fimmtíu mánaðarlaun á ári, en sá sjóður innan listamannalauna sem veitir næstfæst laun veitir 180 mánaðarlaun. Fimmtíu mánaðarlaun gera kannski ekki mikið fyrir hönnunarsamfélagið, en þetta er viðleitni og þau gefa nokkrum hönnuðum og arkitektum tækifæri til að vinna óskipt að sköpun sinni í nokkra mánuði á ári. Í framtíðinni hlýtur launasjóður hönnuða að stækka enda ætti það að vera keppikefli stjórnvalda að styðja við bakið á þeirri virðisaukandi starfsemi sem frumsköpun á sviði hönnunar er.

Annað gleðiefni fyrir skapandi fólk er stofnun nýs hönnunarsjóðs í fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar. Í þennan nýja sjóð á að setja 45 milljónir króna. Enn á eftir að setja sjóðnum reglur, en hann mun styrkja ákveðin verkefni og verða þannig sá bakhjarl sem oft þarf til að ýta góðum hlutum áfram. Þessi nýi sjóður verður án efa mikil lyftistöng fyrir íslenskt hönnunarsamfélag, þegar fleiri hönnuðir fá tækifæri til að vinna verkum sínum brautargengi. Hann ætti því að efla anda íslenskra hönnuða og hleypa þeim kapp í kinn.

Íhaldssemi

En þrátt fyrir að það sé stórt skref að fá loksins verkefnasjóð á sviði hönnunar þá verður maður samt óneitanlega nokkuð sorgmæddur yfir að sjá íhaldssemina sem lýsir sér í úthlutun þeirra 250 milljóna sem ákveðið hefur verið að veita aukalega til skapandi greina. Helmingur fjárins verður settur í sjóði sem áður var búið að úthluta 205 milljónum. Framlög til eldri sjóða á sviði bókmennta, leiklistar og tónlistar hækka sem sagt úr 205 í 330 milljónir en nýir sjóðir á sviði hönnunar, myndlistar, handverks og tónlistar fá samtals 125 milljónir.

Aukin fjölbreytni á vörum til útflutnings er að mati sérfræðinga Alþjóða gjaldeyrissjóðsins forsenda aukinna útflutningstekna. Auknar útflutningstekjur eru að sama skapi forsenda þess að Ísland losi um skuldastöðu sína. Stuðningur stjórnvalda við hönnun er því ekki fjáraustur í eitthvert svarthol heldur fjárfesting sem skilar sér til baka í beinhörðum peningum, auk þess að bæta umhverfi og menningarlíf okkar allra.

Fjárfestum í hönnun.




Skoðun

Sjá meira


×