Innlent

Stórar makríltorfur á Faxaflóa

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Stórir flekkir af makríl hafa sést á Faxaflóa í dag. Þessi var þó myndaður undan Vestmannaeyjum.
Stórir flekkir af makríl hafa sést á Faxaflóa í dag. Þessi var þó myndaður undan Vestmannaeyjum. Vísir
Töluverður fjöldi fólks hefur safnast saman á bryggjunni í Garði á Reykjanesskaga til að renna fyrir makríl sem veður nú Faxaflóa í stórum torfum

Að sögn Guðmundar Inga Ragnarssonar,  sjónarvotts í Garði, er fiskurinn „stór, fallegur og fullur af ljósátu”  og sjást „dökkir flekkir á sjónum allt inn í Keflavík.” Um sé að ræða fleiri hundruð tonn og hafa bæjarbúarnir á bryggjunni ekki farið varhluta af makrílnum sem er töluvert fyrr á ferðinni en undanfarin ár.

Guðmundur áætlar að fiskurinn láti nú sjá sig rúmri viku fyrr en í fyrra þegar makrílinn óð Garð- og Leirusjó í kringum 8. júlí. Árið þar áður hafi hann verið á ferðinni þann 20. sama mánaðar.

Guðmundur segir að þeir sem hafi lagt leið sína niður á bryggju hafi haft mikið af makríl upp úr krafsinu – líklega um 50 til 100 kíló á mann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×