Lífið

Stórar Eurovision-stjörnur á svið Hörpu

Þau Sigga, Friðrik, Regína og Hera halda uppi stuðinu á Eurovision-tónleikum Pink Iceland í Silfurbergi, ásamt Páli Óskari og Eurobandinu. Fréttablaðið/Pjetur
Þau Sigga, Friðrik, Regína og Hera halda uppi stuðinu á Eurovision-tónleikum Pink Iceland í Silfurbergi, ásamt Páli Óskari og Eurobandinu. Fréttablaðið/Pjetur
"Þetta verður æðislega stór og umfangsmikil hátíð og við höfum fundið fyrir gríðarlegum meðbyr úr öllum áttum, sem er auðvitað frábært. Það má segja að þetta sé hálfgert vetrar-pride fyrir fólk til að lyfta sér upp í skammdeginu," segir Hannes Páll Pálsson hjá Pink Iceland.

Pink Iceland stendur fyrir hátíðinni Rainbow Reykjavík í annað sinn dagana 31. janúar til 3. febrúar næstkomandi. Reiknað er með um sjötíu erlendum gestum á hátíðina, sem samanstendur af margs konar viðburðum og ferðum um landið. "Þeir sem kaupa sig inn á alla hátíðina þurfa í raun ekki að hugsa um neitt. Það er stjanað við þá frá morgni til kvölds," segir Hannes og bætir við að þeir séu ekki margir Íslendingarnir sem kaupa sig inn í allan pakkann, en þeir séu þó afar duglegir að láta sjá sig á einstaka viðburðum.

Hátíðin fer fram í Reykjavík og á Suðurlandi þar sem sem boðið verður upp á dagsferðir. Hápunkturinn verður svo föstudagskvöldið 1. febrúar þegar öllum verður safnað saman í sal Silfurbergs í Hörpu á Eurovision-tónleika. Þar mæta á svið nokkrar af okkar helstu Eurovision-stjörnum og taka nokkra af slögurum keppninnar í gegnum tíðina. Eurobandið sér um undirleik og Páll Óskar, Sigga Beinteins, Hera Björk, Friðrik Ómar og Regína Ósk um sönginn. "Þegar við fórum að hugsa um vini okkar í söngbransanum og hverja við vildum fá á tónleikana þá komu þeirra nöfn upp. Palli, Sigga og Friðrik eru auðvitað öll samkynhneigð og svo eru Hera Björk og Regína Ósk algjör "gay-idol". Þarna vorum við því komin með stórkostlegt fólk á lista. Þegar við svo áttuðum okkur á því að öll höfðu þau tekið þátt í Eurovision ákváðum við að fara í þá átt að halda risastórt Eurovision-partí," segir hann.

Rúmlega 500 miðar eru í boði á tónleikana, sem verða standandi. Þeir eru þegar komnir í sölu á Midi.is og Harpa.is og Hannes leggur áherslu á að allir séu velkomnir, óháð Eurovision-áhuga og kynhneigð, en Pink Iceland sérhæfir sig í ferðaþjónustu og viðburðastjórnun fyrir samkynhneigða. "Við vinnum fyrst og fremst undir þeim merkjum að búa til aðstæður þar sem okkar fólki líður vel, en við leggjum samt sem áður áherslu á að allir séu velkomnir," segir hann. tinnaros@frettabladid.is


Tengdar fréttir

Verður jafn stórt og Gay pride

"Eurobandið á lagalista sem telur yfir 60 lög og ef ég þekki þennan hóp flytjenda rétt kunnum við þau öll utanbókar. Við þurfum því bara að fara yfir listann og velja úr. Þetta verður bara risadjamm á sviðinu,“ segir Páll Óskar Hjálmtýsson, sem verður á sviðinu á Eurovision-tónleikunum í Hörpu. "Mér líst rosalega vel á þetta og er mjög spenntur, bæði fyrir tónleikunum og líka fyrir hátíðinni sjálfri,“ segir hann. "Ég hef trú á að með Rainbow Reykjavík-hátíðinni sé Pink Iceland að sá fræi sem stækkar með árunum og verður á endanum jafn stórt og Gay Pride er á sumrin,“ bætir hann við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×