Skoðun

Stjórnarskrártillögur því miður ekki nógu góðar

Haraldur Ólafsson skrifar
Í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá sem nú liggja fyrir eru margir kaflar með fögrum orðum um mannréttindi, lýðræði og hvers kyns frelsi og rétt. Allt ber það vott um manngæsku og réttsýni ráðsins og að ráðamenn hafi tekið starf sitt alvarlega enda ýmsir þeirra þekktir sómamenn.

Undir lok stjórnarskrárdraganna kemur í ljós að hægt á að vera að breyta stjórnarskrá með einföldum meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu og jafnvel án þjóðaratkvæðis ef fimm sjöttu hlutar Alþingis standa að breytingunni. Nokkuð auðveldlega má í hvelli framselja ríkisvald úr landi með einföldum meirihluta Alþingis og þjóðaratkvæði sem sömu stjórnvöld framkvæma. Þegar valdið er farið burt er hætt við að lítið geti komið fyrir fögur orð í öðrum köflum stjórnarskrárinnar. Fyrirvari um að valdaframsal skuli vera afturkræft er lítils virði, því þótt svo kunni að vera í orði kveðnu getur hæglega orðið óframkvæmanlegt að endurheimta fullveldi einhliða. Þetta atriði eitt og sér er svo veigamikið að óháð öðrum liðum stjórnarskrárdraganna er ekki annað hægt en að neita því að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Áhugamenn um framsal ríkisvalds til útlanda og þeir sem telja að fullveldi þjóðarinnar sé best fyrir komið í höndum annarra en þeirra sem kosnir eru af henni sjálfri ættu að sýna sjálfum sér og samborgurum sínum þá virðingu að stefna ekki á að ná sínu fram með einföldum meirihluta í kosningum sem hugsanlega yrði efnt til í skyndingu við annarlegar aðstæður. Eðlilegt er að miklar og varanlegar breytingar á stjórnskipun, þar á meðal innlimun í erlent ríkjasamband, yrðu ekki nema að baki stæði aukinn meirihluti þjóðarinnar og að sá aukni meirihluti hafi verið um nokkra hríð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×