Skoðun

Stjórnarhættir fyrirtækja

Lára Jóhannsdóttir skrifar
Efnahagshrunið hefur ýtt undir þá kröfu að fyrirtæki ástundi góða stjórnarhætti (e. corporate governance). Gefnar hafa verið út leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja á vegum Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins og NASDAQ OMX Iceland, en 4. útgáfa kom út árið 2012. Leiðbeiningarnar eiga að gagnast öllum fyrirtækjum, þó svo að skráð félög, fjármálafyrirtæki, vátryggingafélög og lífeyrissjóðir eigi að vera leiðandi í innleiðingu þeirra. Góðir stjórnarhættir byggjast m.a. á því að hlutverk og ábyrgð stjórnenda sé skýr, því það auðveldar þeim að rækja störfin af alúð á sama tíma og hagur helstu hagsmunaaðila er tryggður.

Býðst að gangast undir mat

Til að auðvelda stjórnendum að rækja störf sín gefur KPMG út Handbók stjórnarmanna, auk þess að gera kannanir á meðal þeirra og gera úttektir á stjórnarháttum fyrirtækja. Eftirfylgni varðandi góða stjórnarhætti er í höndum Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins, NASDAQ OMX Iceland og Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands. Fyrirtækjum býðst að undirgangast formlegt mat á starfsháttum stjórnar og stjórnenda. Matið fer fram á vegum Rannsóknarmiðstöðvarinnar. Fyrirtæki sem standast matið geta kallað sig Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.

Í stað þess að fjalla um góða stjórnarhætti út af fyrir sig þá er víða erlendis fjallað um umhverfismál, samfélagsmál og stjórnarhætti (e. environmental, social and governance – ESG í styttingu) undir sama hattinum, en þessi samtvinnun er nátengd áherslum á sjálfbærni sem felur í sér jafnvægi á milli efnahagslegra, umhverfislegra og samfélagslegra þátta en sjálfbær þróun er forsenda hagsældar til lengri tíma litið. Í desember 2013 samþykkti Evrópuþingið, sem fer með löggjafarvald í Evrópusambandinu ásamt ráðherraráðinu, ESG-löggjöf sem lýtur að stórum skráðum fyrirtækjum, sem og óskráðum fyrirtækum, til að mynda bönkum og vátryggingafélögum. Um er að ræða viðbætur við bókhaldstilskipunina (Directive 2013/34/EU). Þess verður krafist að umræddir aðilar birti upplýsingar í ársskýrslum um málefni er lúta að starfsfólki, umhverfis- og samfélagsmálum en ekki bara upplýsingar um fjárhagslega afkomu.

Víkka þarf út leiðbeiningar

Þegar kemur að endurskoðun á næstu leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, sem og úttektum sem eiga sér stað í kjölfarið, er ekki eðlilegt að taka mið af þróun sem á sér stað í löndunum í kringum okkur? Það þýðir að víkka þarf út leiðbeiningar um stjórnarhætti þannig að þær taki einnig á umhverfis- og samfélagslegum þáttum þar sem fyrirtæki hafa með rekstri sínum áhrif á umhverfi og samfélag, en ætla mætti að það væri ekki óeðlileg krafa að þau stuðli að sjálfbærri þróun með rekstri sínum.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×